Innlent

Flutningur á innanlandsflugi hefði alvarlegar afleiðingar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Flutningur miðstöðvar innanlandsflugs frá Reykjavík til Keflavíkur hefði afar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa á landsbygðinni og flug til þriggja bæja myndi alfarið leggjast af.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem KPMG vann fyrir sex sveitarfélög á landsbyggðinni og kynnt var á Reykjavíkurflugvelli í dag. Í máli bæjarstjóranna sem viðstaddir voru kynninguna kom fram að skýrslan væri hugsuð sem innlegg í umræðuna um flugvöll í Vatnsmýri, mikið væri til af skýrslum um áhrif flugvallarins á borgarbúa, en minna hefði farið fyrir rannsóknum á mikilvægi hans fyrir landsbyggðina.

Í skýrslunni er aðeins horft til tveggja kosta, að innanlandsflugið verði áfram í Reykjavík eða að starfsemin flytjist til Keflavíkur. Skýrsluhöfundar segja að fækkun flugferða nemi allt að fjörutíu prósentum á einstökum leiðum og í skýrslunni er því einnig haldið fram að við flutninginn muni flug til Ísafjarðar, Hornafjarðar og Vestmannaeyja leggjast af í núverandi mynd.

Ferðakostnaður mun einnig aukast fyrir íbúa landsbyggðarinnar, svo nemur sex til sjö milljörðum á ári og þá eru ótalin neikvæð áhrif á atvinnulíf,, menntamál, menningu og almenn lífsgæði þeirra sem búa á landsbyggðinni.

Ísafjörður er einn þeirra staða sem verst færu út úr flutningnum.

„Ég held að það hafi alltaf legið fyrir að það sé ekki valkostur fyrir okkur að fara í gegnum Keflavík," segir Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem kallar eftir víðtækara samráði landsbyggðar, höfuðborgar og innanríkisráðuneytisins þegar kemur að framtíð flugvallarins.

„Það þarf bara að fara yfr þetta, við þurfum að vinna þetta saman, ég held að þetta sé stærra mál en svo, við viljum koma að borðinu og taka þátt í þessari vinnu," segir Daníel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×