Körfubolti

Jordan vildi frekar semja við Adidas en við Nike

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan með Air Jordan skóna sem urðu vinsælustu körfuboltaskór heims.
Michael Jordan með Air Jordan skóna sem urðu vinsælustu körfuboltaskór heims. EPA/PAUL HILTON

Samningur Michael Jordan og Nike er nú hluti af íþróttasögunni enda átti hann mikinn þátt í því að gera Nike að einu vinsælasta íþróttavörumerki heims.

Fyrsti samningur Michael Jordan og Nike var til umfjöllunar í nýjustu þáttunum af „The Last Dance“ sem fjalla um lokatímabil Jordan hjá Chicago Bulls.

Ungur Michael Jordan sagði frá því í heimildarmyndinni að hann vildi helst semja við Adidas eftir að kom í ljós að Converse taldi sig hafa nóg af stórstjörnum á sínum snærum.

Converse var þarna aðalmerkið í NBA-deildinni og þar voru menn eins og Magic Johnson, Larry Bird og Dr J. á samning. Valið hjá Michael Jordan stóð því á milli Nike og Adidas.

Adidas vildi ekki gefa honum sinn eigin skó en Nike vildi aftur á móti allt fyrir hann gera.

David Falk, umboðsmaður Michael Jordan, sagði að honum hafði ekki einu sinni tekist það að fá Jordan til að fara að hitta Nike. David Falk þurfti því að leita til móðurs Jordan til að sannfæra hann.

„Móðir mín sagði: Þú ferð og hlutar á þá. Þú verður kannski ekki hrifinn en þú ferð og hlustar. Hún skipaði mér að fara upp í flugvélina og á fundinn,“ rifjaði Michael Jordan upp.

„Ég fór inn á fundinn án þess að vilja vera þar. Nike kláraði kynninguna. Faðir minn sagði síðan við mig: Þú værir algjör vitleysingur ef þú skrifar ekki undir þennan samning. Þetta er besti samningurinn,“ sagði Jordan. Hann tók ráðum föður síns.

Jordan fékk 250 þúsund dollara fyrir þennan fyrsta samning sem var mjög mikill peningur á þeim tíma. Nike sá samt ekki eftir því.

„Væntingar Nike voru að selja Air Jordan skó fyrir þrjár milljónir dollara á þessum fjórum árum. Við seldum skó fyrir 126 milljónir dollara á fyrsta árinu,“ sagði David Falk, umboðsmaður Michael Jordan.

Air Jordan skórnir hafa síðan haldið áfram að seljast fyrir milljónir dollara allt til dagsins í dag.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×