Körfubolti

Jordan segist vita hver svikarinn innan raða Chicago var

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Myndin sem Sam Smith dró upp af Michael Jordan í bókinni The Jordan Rules var önnur en aðdáendur hans þekktu.
Myndin sem Sam Smith dró upp af Michael Jordan í bókinni The Jordan Rules var önnur en aðdáendur hans þekktu. vísir/getty

Michael Jordan segist vita hvaða liðsfélagi hans hjá Chicago Bulls var heimildamaður blaðamannsins Sams Smith þegar hann skrifaði bókina The Jordan Rules.

Í bókinni, sem kom út 1992, var dregin upp miður geðsleg mynd af Jordan og fjallað um stormasamt samband hans við samherja sína. Meðal þess sem þar kom fram var Jordan hvatti liðsfélaga sína til að gefa ekki á miðherjann Bill Cartwright þegar mikið var undir og þegar hann kýldi annan miðherja, Will Purdue.

The Jordan Rules seldist vel og vakti mikla athygli, mun meiri en Smith gerði ráð fyrir. Aðdáendur Jordans voru lítt hrifnir af bókinni og Smith fékk fjölda hótana vegna hennar.

Í sjötta þætti The Last Dance, þáttaraðar um tímabilið 1997-98 hjá Chicago Bulls, er fjallað um The Jordan Rules og hvaða áhrif útkoma hennar hafði á lið Chicago.

Eftir að bókin kom út fór leit að sökudólgum strax af stað en nokkuð ljóst var að Smith var með heimildamann í herbúðum Chicago.

Í The Last Dance segir Jordan að Horace Grant hafi verið heimildamaður Smiths og sagt honum frá því hvað gekk á bak við tjöldin hjá Chicago. Grant þvertekur fyrir þetta. Í The Last Dance sagði hann vissulega að þeim Smith væri vel til vina en hann hefði ekki svikið liðsfélaga sína.

Scottie Pippen og Horace Grant voru samherjar hjá Chicago Bulls áður en leiðir skildu og Grant fór til Orlando Magic.vísir/Getty

Grant var í lykilhlutverki hjá Chicago sem varð meistari þrjú ár í röð (1991-93). Honum fannst þáttur hans í velgengni liðsins þó ekki vera nógu mikils metinn og hann hafi ekki fengið það hrós sem hann átti skilið.

Sumarið 1994 fór Grant til Orlando Magic þar sem hann lék m.a. með Shaquille O'Neal og Penny Hardaway.

Grant og félagar í Orlando slógu Chicago úr leik, 4-2, í undanúrslitum Austurdeildarinnar 1995. Jordan var þá nýbyrjaður að spila körfubolta aftur eftir að hafa einbeitt sér að hafnabolta um skeið.

Orlando fór alla leið í úrslit NBA þar sem liðið tapaði fyrir Houston Rockets, 4-0. Á næsta tímabili náði Chicago svo fram hefndum og sló Orlando út á leiðinni að sínum fjórða meistaratitli.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×