Innlent

Sjávarklasinn fræðir framhaldsskólanema

Svavar Hávarðsson skrifar
Þór Sigfússon
Þór Sigfússon Mynd/Sjávarklasinn
Íslenski sjávarklasinn stendur fyrir opnum degi fyrir framhaldsskólanema í Húsi sjávarklasans að Grandagarði. Með viðburðinum vill forsvarsfólk Sjávarklasans gefa framhaldsskólanemum, sem nú eru verkefnalitlir, færi á að kynnast hinum svokallaða sjávarklasa á Íslandi, en með því er átt við sjávarútveg og hliðargreinar hans.

„Eitt brýnasta verkefni sjávarútvegsins í dag er að virkja nýja kynslóð. Þessi kynslóð getur fært greinina á hærri stall í framtíðinni en til þess þarf hún vera meðvituð um tækifæri greinarinnar. Við finnum líka fyrir skorti á tengslum milli atvinnulífs og menntageira. Við höfum gert ýmislegt til að leggja okkar að mörkum í þeim efnum og þetta er liður í því,“ segir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

„Við hlökkum mjög til að fá nemana til okkar í heimsókn. Við ætlum að fræða þá um sjávarklasann á Íslandi og þau víðtæku atvinnutækifæri sem þar leynast. Sömuleiðis ætlum við að sýna þeim dæmi um þær fjölbreyttu vörur sem eru þróaðar innan sjávarklasans, allt frá fiski og framleiðslutækjum til snyrtiafurða og lækningavara,“ segir Þór.

Íslenski sjávarklasinn er samstarfsvettvangur ríflega 50 fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum, en í Húsi sjávarklasans starfa svo önnur 30 hafsækin fyrirtæki auk þess sem þar er rekið frumkvöðlasetur fyrir nýjar viðskiptahugmyndir.

Viðburðurinn stendur frá 13 til 15 miðvikudaginn 2. apríl í Húsi sjávarklasans, Grandagarði 16 og er opinn öllum framhaldsskólanemum þeim að kostnaðarlausu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×