Lífið

Hugmyndin var til skiptis uppi á borði eða ofan í skúffu

Baldvin Þormóðsson skrifar
Kristján S. Bjarnason er ánægður með útkomu leiksins.
Kristján S. Bjarnason er ánægður með útkomu leiksins. mynd/úr safni
„Ég var búinn að ganga með þetta í maganum í fimm ár,“ segir Kristján S. Bjarnason, sem hannaði leikinn IKUE sem íslenska hugbúnaðarhúsið Gebo Kano gaf út 13. mars.

„Þetta byrjaði nú bara sem krot á blaði og frumgerðin var allt öðruvísi en lokaútkoman,“ segir Kristján, en um er að ræða heilabrotaleik fyrir snjalltæki. Leikurinn, sem ber nafnið IKUE, er krefjandi formþrautaleikur sem þjálfar bæði rýmisgreind og lausnahugsun.

„Ég á stafrænu smiðjunni Fablab á Akranesi mikið að þakka að þessi leikur varð að raunveruleika,“ segir Kristján, en hann naut þess í ríkum mæli að vinna með þau tæki og tól sem Fablab hefur upp á að bjóða.

„Stafrænar smiðjur eru ómetanlegar fyrir fólk sem er að vinna í svona nýjungastarfsemi,“ segir Kristján. „Þá hefur maður aðgang að alls kyns prenturum og stafrænum tólum sem maður hefði annars ekki efni á að vinna með,“ segir Kristján, sem gæti hugsað sér að vinna meira í slíkri starfsemi.

„Maður veit aldrei hvað manni dettur í hug, það er allt opið í þessum efnum,“ segir Kristján en hægt er að sækja IKUE í App Store og er grunnpakki leiksins ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×