Lífið

Vilja klára mynd um Regnbogamanninn

Baldvin Þormóðsson skrifar
Regnbogamaðurinn er bjartsýnn og jákvæður maður.
Regnbogamaðurinn er bjartsýnn og jákvæður maður. mynd/einkasafn
„Við hittum hann á svo frábærum tíma,“ segir Marsibil Jóna Sæmundardóttir, en hún leikstýrir heimildarmynd um hinn víðfræga Regnbogamann.

„Þetta var allt að byrja hjá honum á þessum tíma, hann var rétt að byrja að átta sig á því að lífið hans væri að fara að breytast,“ segir Marsibil sem hitti Paul Bear Vasquez árið 2010. Þá hafði Vasquez, betur þekktur sem Regnbogamaðurinn, nýlega sett inn myndband á síðuna Youtube þar sem hann stóð agndofa yfir svokölluðum tvöföldum regnboga.

Myndbandið vakti töluverða athygli og fór eins og eldibrandur um netheima en til dagsins í dag hafa um það bil fjörutíu milljónir manna séð myndbandið.

„Stórar þáttaraðir á borð við How I Met Your Mother og South Park hafa vitnað í myndbandið hans,“ segir Marsibil, en hún hitti hann þegar hann var fluttur inn til Íslands af menntaskólanemendum.

„Þetta er rosalega fyndin saga,“ segir Marsibil. Það var formaður Nemendafélags Hraðbrautar sem hafði samband við Vasquez og vildi fá hann til Íslands.

„Fyrst hélt hann að þetta væri djók,“ segir Marsibil. Vasquez var þá ekki búinn að átta sig á frægð sinni.

„Svo var hann bara til í að koma og ég spurði hvort ég mætti taka upp ferðalagið og jafnvel vinna heimildarmynd úr upptökunum,“ segir Marsibil, en þetta var í fyrsta skipti sem Vasquez ferðaðist út fyrir Norður-Ameríku.

„Upptökurnar heppnuðust svo vel af því að hann er svo skemmtilegur karakter,“ segir Marsibil, sem lýsir Vasquez sem bjartsýnum og jákvæðum manni.

„Þess vegna finnst mér þetta efni sem við erum með í höndunum svo merkilegt,“ segir Marsibil, sem stendur í peningasöfnun á vefsíðunni Kickstarter til þess að geta klárað myndina og gefið hana út.

„Við vildum bíða í nokkur ár með að klára myndina,“ segir Marsibil. „Leyfa honum að komast aftur heim til sín og taka því rólega áður en við hittum hann aftur og sjáum hvernig honum líður eftir ævintýrið,“ segir Marsibil, sem stefnir að því að hitta Vasquez í sumar og klára myndina fyrir árslok.

Hægt er að leggja myndinni lið á heimasíðu Kickstarter.

Myndbandið hans Bear er hægt að sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.