Skoðun

Flugvöll í Vatnsmýri

Sigurjón Arnórsson skrifar
Árið 1940 hóf breski herinn byggingaframkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll. Afi minn, sem þá var ungur flugáhugamaður, rifjar upp minningar frá þessum tíma:

„Allt í einu fylltust göturnar af vörubílum sem fluttu rauðan sand frá Rauðhólum. Það þurfti svo gífurlega mikið magn þar sem þarna eru eingöngu mýrar og svo langt niður á fast. Margir festu kaup á vörubílum og allir ætluðu að verða ríkir.“

Á þessum tíma vann afi hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og tók þátt í að leggja rafmagn á svæðinu. Það var mikil uppbygging, margir fengu vinnu við framkvæmdirnar og síðan við ýmis störf eftir að flugvöllurinn var tekinn í notkun. Menn voru jafnvel sendir upp í Landakotskirkjuturninn til að hlusta eftir og fylgjast með óvinaflugvélum.

Þrátt fyrir að völlurinn væri að mestu lokaður þar til Bretar afhentu Íslendingum hann í júlí 1946, fengu Íslendingar í örfáum tilfellum afnot af honum. Til dæmis stofnuðu afi og félagar flugskóla þar árið 1944.

Þegar Íslendingar tóku við rekstri flugvallarins braust út mikill flugáhugi, ný samgönguæð opnaðist, flugskólar voru stofnaðir og um leið hófst mikið „fluglíf“. Í fyrstu voru sjóflugvélar aðallega notaðar þar sem fáir flugvellir voru til á landinu. Fljótlega byrjaði Flugmálastjórn að senda vinnuflokka út um allt land og flugvellir byggðir á melum. Þessa flugvelli var eingöngu hægt að nota á sumrin.

Þegar Reykjavíkurflugvöllur var tekinn í notkun opnaðist nýr samgöngumáti sem hefur alla tíð síðan verið mikilvægur fyrir Reykvíkinga og alla aðra landsmenn. Reykjavíkurflugvöllur er bæði sögulega og menningarlega mikilvægur. Hann var reistur á mesta umbyltingarskeiði borgarinnar og landsins alls. Eftir standa margar mikilvægar minjar frá þessu tímabili. Þar má nefna flugturninn, braggana í Nauthólsvík og stóru flugskýlin. Þetta eru jafn verðmætar söguminjar og allnokkrir húskofar í miðborginni sem Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á að vernda og fest kaup á með skattpeningum borgabúa.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2030 telur stjórn Reykjavíkurborgar skynsamlegt að láta Reykjavíkurflugvöll víkja fyrir auknum möguleikum á uppbyggingu byggðar í Reykjavík. Eftir þrjú ár er stefnt að því að loka annarri aðalflugbraut Reykjavíkurflugvallar, norður-suðurbrautinni. Þessi lokun gerir Reykjavíkurflugvöll ónothæfan fyrir farþegaflug.

Reykjavíkurflugvöllur er enn í dag mikilvæg samgönguæð bæði fyrir borgabúa og aðra landsmenn. Þar hefur þróast margs konar þjónusta og önnur starfsemi. Höfuðborg landsins verður að vera vel tengd við aðra landshluta og Reykjavíkurflugvöllur er vel staðsettur til að þjóna því hlutverki til framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×