Innlent

Þráinn hefur ekki gert upp hug sinn

„Umræður í þinginu eru til þess að hjálpa mönnum að gera upp hug sinn," segir Þráinn.
„Umræður í þinginu eru til þess að hjálpa mönnum að gera upp hug sinn," segir Þráinn. Mynd/Valgarður Gíslason
Þráinn Bertelsson, þingmaður utan flokka, segist ekki hafa gert upp hug sinn til frumvarps ríkisstjórnarinnar um Icesave. Alþingi kemur saman eftir hádegi og þá hefst þriðja umræða um frumvarpið.

Ríkisstjórnin hefur 34 þingmenn á móti 29 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Búist er við að bæði Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson greiði atkvæði gegn frumvarpinu. Aftur á móti er afstaða Ásmundar Einars Daðasonar og Þráins óljós en báðir greiddu atkvæði með frumvarpinu í annarri umræðu. Þráinn greiddi hins vegar atkvæði gegn í málinu í sumar. Þegar atkvæði voru greidd í annarri umræðu sagði Þráinn að kominn væri tími til að slá skjaldborg um fólkið í landinu í stað þess að liggja í skotgröfum á Alþingi.

Þráinn segist ekki hafa kynnt sér þau gögn sem komið hafa fram hjá fjárlaganefnd eftir að málinu var vísað þangað fyrr í mánuðinum. Hann ætli auk þess að hlusta á þau rök sem koma fram við umræðuna sem hefst í dag.

„Til þess er væntanlega umræða ef maður er ekki bundinn á flokksklafa og tekur ekki við fyrirmælum að ofan. Umræður í þinginu eru til þess að hjálpa mönnum að gera upp hug sinn," segir Þráinn.

Ekki hefur náðst í Ásmund Einar vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×