Sport

Lazio fær heimaleiksbann

Ítalska knattspyrnuliðið Lazio þarf að leika næsta heimaleik sinn í Evrópukeppni án áhorfenda en það er refsing sem félagið þarf að sæta vegna kynþáttaníðs stuðningsmanna liðsins. Þá hefur Real Madrid verið sektað um 9.780 evrur (816.000 kr) fyrir sömu hegðun sinna stuðningsmanna í Meistaradeildarleik gegn Bayer Leverkusen í síðasta mánuði. Spænskir áhorfendur kölluðu þá nasistaummælum að svörtum leikmönnum þýska liðsins. Knattspyrnusamband Evrópu kvað upp refsingarnar. Lazio sem hefur þrisvar sinnum hlotið refsingu vegna slíkrar hegðunar stuðningsmanna sinna er dottið út úr Evrópukeppninni í ár og því bíður refsingin þar til liðið kemst næst í Evrópukeppni. Umrætt atvik átti sér stað í leik gegn Partizan Belgrade 25. nóvember sl. þar sem stuðningsmenn liðsins létu ófriðlega og voru með kynþáttaníð í garð svartra leikmanna mótherjanna. Í umræddum ólátum köstuðu stuðningsmenn ítalska liðsins lausum hlutum inn á völlinn, réðust á lögreglumenn auk þess sem hnífstunga átti sér stað. Partizan var einnig refsað með sekt upp á 5.200 Evrur vegna stuðningsmanna þeirra sem köstuðu blysum inn á völlinn á Stadio Olimpico.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×