Innlent

Geir, Þorgerður og Árni kusu ekki gegn seðlabankafrumvarpinu

Geir H. Haarde, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Árni Mathiesen greiddu ekki atkvæði gegn umdeildu frumvarpi um breytingar á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í gær. Þá greiddi Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ekki atkvæði með frumvarpinu. Ástæðan er væntanlega sú að ekkert þeirra var viðstatt atkvæðagreiðsluna.

Sjálfstæðismenn gagnrýndu frumvarpið harðlega á meðan það var í höndum þingsins. Frumvarpið var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 18 atkvæðum sjálfstæðismanna. Níu þingmenn voru fjarverndi og þrír, þar á meðal Jóhanna, höfðu tilkynnt skrifstofu Alþingis um fjarvist sína.

26 þingmenn eiga sæti í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eftir að Jón Magnússon gekk í flokkinn á dögunum. Árni M. Mathiesen, Björk Guðjónsdóttir, Geir H. Haarde, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Kjartan Ólafsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi og greiddu ekki atkvæði um frumvarpið.

Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, var einnig fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×