Innlent

Ábyrgðin á KB-banka

KB banki og LÍN undirrituðu í dag samning þess efnis að ábyrgð KB banka getur komið í stað sjálfskuldarábyrgðar einstaklings sem hefur verið skilyrði námslána hjá LÍN. Í stað þess að tilnefna ábyrgðarmann, t.d. foreldri eða skyldmenni, geta námsmenn nú samið um bankaábyrgð á námslán sín beint hjá KB banka. Ábyrgð er veitt fyrir hvert skólaár í einu, og því þarf námsmaður að sækja um nýja námslánaábyrgð í upphafi hvers skólaárs. Fyrir veitta ábyrgð þarf lántakandi að greiða 2.5% ábyrgðargjald af lánsfjárhæð og 350 kr. afgreiðslugjald. Greiðslan er miðuð við heilt skólaár og kemur til frádráttar við útborgun námsláns. Friðrik Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og Hafliði Kristjánsson, framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs undirrituðu samninginn fyrir hönd KB banka. Gunnar Birgisson, stjórnarformaður og Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri undirrituðu samninginn fyrir hönd LÍN.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×