Innlent

Landslið samkynhneigðra: Erum litla liðið sem allir elska

Sundlið Styrmis með verðlaunin, frá vinstri: Julio César Leon Verdugo, Jón Þór Þorleifsson, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Jón Örvar Gestsson, Baldur Snær Jónsson.
Sundlið Styrmis með verðlaunin, frá vinstri: Julio César Leon Verdugo, Jón Þór Þorleifsson, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, Jón Örvar Gestsson, Baldur Snær Jónsson.

„Þetta hefur verið ein allsherjar gargandi snilld frá upphafi til enda. Við erum litla liðið sem allir elska hérna í Kaupmannahöfn," segir Jón Þór Þorleifsson, stjórnarmaður í Styrmi, íþróttafélagi samkynhneigðra, og sundkappi.

Íslenska sundliðið sem lauk keppni á Outgames, eins konar Ólympíu-leikum samkynhneigðra, í gær vann samtals átján gullverðlaun, auk tvennra silfurverðlauna og tvennra bronsverðlauna. Knattspyrnulið Styrmis komst í átta liða úrslit mótsins.

Jón Þór er að vonum sáttur við árangurinn. „Við erum mjög ánægð. Þetta sýnir fólki að samkynhneigðir hafa á mörgu hæfileikaríku íþróttafólki að skipa, og ekki síst á Íslandi. Árangurinn er líka merkilegur í ljósi þess að við byrjuðum að æfa í september á síðasta ári, og höfum því einungis haft tíu mánuði til undirbúnings."

Síðasti keppnisdagur Outgames var í gær. Gleðinni lýkur svo með lokaathöfn í dag, á Gay Pride-degi Kaupmannahafnarbúa. „Við höfum beðið nokkuð lengi með að djamma og því verður tekið vel á því í kvöld," segir Jón Þór Þorleifsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×