Bandaríska fyrirtækið Family Edited DVDs sérhæfir sig í að klippa kynlífs- og ofbeldisatriði úr kvikmyndum til að gera þær fjölskylduvænar. Fyrirtækið selur svo myndirnar aftur og hefur þannig reitt stóru kvikmyndaverin til reiði.
Kvikmyndarisarnir Paramount, Warner Bros., MGM, Disney, Universal og Fox hafa kært fyrirtækið og forstjórann John Webster fyrir að klippa án leyfis og endurselja myndir á borð við Iron Man 2, The Hurt Locker, Prince of Persia og Date Night. Þess má geta að Gísli Örn Garðarsson var ekki í kynlífstengdu hlutverki í Prince of Persia, en ofbeldisatriði sem hann lék í gætu hafa verið klippt út.
Kvikmyndarisarnir telja að Family Edited DVDs hafi brotið höfundaréttarlög. Aðgerðir risanna virðast hafa skilað árangri þar sem Family Edited DVDs auglýsti nýlega sérstaka útsölu þar sem allt átti að seljast, enda væri fyrirtækið að leggja upp laupana.