Handbolti

Leikmenn voru hitamældir inn á æfingar hjá Degi: „Ég vildi slútta þessu“

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson er með samning um að stýra Japan til ársins 2024.
Dagur Sigurðsson er með samning um að stýra Japan til ársins 2024. VÍSIR/GETTY

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handbolta karla, var með liðið í æfingabúðum og undirbúningi fyrir Ólympíuleika þegar kórónuveirufaraldurinn hóf að setja allt íþróttalíf úr skorðum.

„Ég fer þá af stað og byrja að hitamæla mína leikmenn, þannig að þeir skila inn hitatölum í tvær vikur áður en að við byrjum að æfa. Þar sem við erum svo á æfingasvæðinu erum við allir með grímur, það er hitamælt inn á æfingarnar og við reynum að gera þetta eins öruggt og hægt er, og höldum strákunum mjög út af fyrir okkur. En í rauninni vildi ég slútta þessu,“ sagði Dagur í Sportinu í dag, en keppni í japönsku deildinni hafði verið hætt í febrúar vegna faraldursins.

„Ég hafði það á tilfinningunni að það væru æðri menn sem vildu að japanskir íþróttamenn myndu æfa, þangað til að Ólympíuleikunum var frestað. Um leið og það var gert, einhverjum tveimur vikum seinna, þá slaufuðum við okkar æfingatörn. Svo veit ég ekkert hvenær við byrjum aftur. Ég er með planaðar æfingabúðir í júní, sem ég geri ráð fyrir að við hættum við. Svo á ég tíma með þeim í júlí og svo sjáum við til eftir það. Ég er eins og allir aðrir í óvissu með þetta. Eina sem að auðveldar mína stöðu er að samningurinn minn er ekki að renna út í kringum Ólympíuleikana,“ segir Dagur.

Gott að fá aukaár og vonandi HM fyrir Ólympíuleikana

Nú stendur til að Ólympíuleikarnir í Tókýó fari fram sumarið 2021 og það gagnast Degi ágætlega í vinnu sinni við að gera lið Japans samkeppnishæft á handboltasviðinu:

„Ég er ágætlega sáttur við það. Ég er sérstaklega ánægður með Asíuleikana núna í janúar, þar sem við urðum í 3. sæti. Það var framför í því og við fengum smá viðurkenningu á því sem við höfum verið að gera. En við erum enn langt frá bestu Evrópuliðunum. Við hefðum vonandi gert okkar bestu hluti á Ólympíuleikunum en nú fæ ég vonandi eitt ár í viðbót og það getur verið mjög jákvætt, sérstaklega af því að við komumst inn á HM í janúar. Ég fæ því eitt stórmót með liðinu ef að allt gengur eðlilega, og það setur vel inn á reynslubankann. En hvort að það sé nóg til að við komumst nær 12 bestu þjóðum heims er önnur Ella. Það verður bara að koma í ljós,“ segir Dagur.

Klippa: Sportið í dag - Dagur um undirbúninginn fyrir ÓL

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.