Lífið

Eurovision liður í sjálfstæðisbaráttu

Segist styðja Palestínu í hvaða vitleysu sem er - ekki síst Euroivison-vitleysu
Segist styðja Palestínu í hvaða vitleysu sem er - ekki síst Euroivison-vitleysu

„Ég styð þá í hvaða vitleysu sem er eins og þar stendur. Sjálfsagt, fyrst keppnin hefur teygt sig svo langt landfræðilega að Ísraelsmenn eru með, að Palestínumenn taki líka þátt. Hafi þeir áhuga á því,” segir Sveinn Rúnar Hauksson læknir og formaður félagsins Ísland-Palestína.

Palestínumenn hafa nú lýst yfir áhuga á að taka þátt í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva EBU og hefur aðildarumsókn verið send til EBU. Embættismenn í Ramallah segja að Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, styðji þetta framtak og vonist til að Palestínumenn fái að taka þátt í keppninni að ári.

Sveinn Rúnar segir að þeim veiti ekki af hverju tækifæri sem er til að minna á tilvist sína. Þátttaka Ísraelsmanna hafi verið partur af „mjúka stríðinu”. Að draga að sér jákvæða athygli.

„Ekki hefur Ísraelstjórn veitt af. Palestínumenn hafa verið að freista þess að taka þátt í öðru sambærilegu svo sem tilnefningu til Óskarsverðlauna en þar var fyrirstaða á þeim grundvelli að tillagan kæmi ekki frá sjálfstæðu ríki. Ég geri ráð fyrir því að þátttaka í Eurovision sé liður í baráttu fyrir sjálfstæði og viðurkenningu.”

Sveinn Rúnar segist reyndar ekki vera mikill aðdáandi þess fyrirbæris sem söngvakeppnin er þó hann hafi fallið fyrir einu og einu lagi. En þetta sé náttúrlega ágætis fólk sem að þessu standi. Þar með talinn Sveinn Rúnar Sigurðsson.

„Já, okkur hefur verið ruglað saman. Það hefur gengið svo langt að mér hefur verið óskað til hamingju með þessi lög hans. Og sumir blaðamenn hafa breytt nafni hans og sögðu Hauksson. Mátti þá vart á milli sjá hvor var ósáttari við það: Ég að vera orðinn einhver Eurovisionhöfundur og hann að missa af sinni Eurovision-frægð. En ég kannast aðeins við hann Svein Rúnar, skemmtilegur og skapandi.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.