Innlent

Samkomulag um að sækja tækin

Landsvirkjun hafði náð samkomulagi við stjórnendur Slippstöðvarinnar á Akureyri um að sækja tæki sem nota átti við Kárahnjúka og fengið fyrirtæki til að sækja þau, segir Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar á Kárahnjúkum. Hann segir Landsvirkjun hafa haft milligöngu fyrir þýska fyrirtækið DSD Stahlbau GmbH sem sér um byggingu aðfallsganga virkjunarinnar. Starfsmenn Slippstöðvarinnar fengu fregnir af því að peningur ætti að koma inn í fyrirtækið sem væri óvíst að ætti að nota í launagreiðslur og lögðu því stöðina undir sig. Sigurður segir að hluti af samkomulaginu við Slippstöðina hafi snúið að fjármálum en vildi ekkert tjá sig um hvort í því fælist að greiðslur bærust inn á reikninga fyrirtækisins. Um hundrað manns eiga inni laun hjá Slippstöðinni á Akureyri og vita ekki hvort eða hvenær þeir fá útborgað. Starfsmennirnir brugðu því á það ráð að loka Slippstöðinni og logsjóða aftur dyr til að knýja á um lausn sinna mála. Þorsteinn J. Haraldsson, trúnaðarmaður starfsmanna, segir menn hafa ákveðið að grípa til aðgerða þegar fréttist að flytja ætti efni úr stöðinni til Kárahnjúka og að peningar væru hugsanlega að koma inn í fyrirtækið sem ekki færu í launagreiðslur. Starfsmenn hafa óskað svara stjórnenda og bankans um hvenær laun verða greidd en ekki fengið. Þeir skipuleggja nú vaktir allan sólarhringinn alla helgina til að knýja á um launagreiðslur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×