Innlent

Tólf ára drengur týndist á hóteli við Laugaveg í nótt

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Tólf ára drengur týndist á hóteli við Laugaveg í nótt að því er fram kemur í dagbók lögreglu sem var kölluð á vettvang.

Hafði drengurinn farið út úr herbergi sínu og börðu lögreglumenn á allar dyr hótelsins en þær eru rétt um fimmtíu talsins. Talið var að drengurinn hefði gengið í svefni.

„Drengurinn fannst síðar sofandi í sófa á öðru herbergi.  Konu sem bjó þar var nokkuð brugðið þar sem hún vissi ekki um þennan unga gest sem hafði komið sér fyrir í herbergi hennar,“ segir í dagbók lögreglu.

Þá var tilkynnt um þjófnað  úr íbúð við Hringbraut rétt eftir miðnætti.  Maður var handtekinn á vettvangi grunaður um húsbrot og þjófnað.  Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var maðurinn að koma aftur til að stela fleiru er hann var handtekinn en þá hafði hann eytt peningum sem hann hafði stolið áður.  Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×