Innlent

Ísframleiðsla úr landi eða leggist af

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Íslensk ísframleiðsla mun flytjast úr landi eða leggjast af verði búvörusamningar og boðaðar tollabreytingar að veruleika. Þetta segir framkvæmdastjóri Kjöríss en hann hvetur stjórnvöld til að semja upp á nýtt við bændur.

Búvörusamningar ríkisins við bændur verða teknir fyrir á Alþingi í ágúst og þeir staðfestir náist samstaða um málið. Þá taka gildi tollabreytingar þann 1. janúar næstkomandi en bæði þessi atriði hafa áhrif á íslenska matvælaframleiðslu. Framkvæmdastjóri Kjöríss segir að sótt sé að fyrirtækinu úr tveimur áttum. „Bæði í tollabreytingunum að þar er verið að lækka tolla á ís um 40 prósent, bæði magntoll og prósentutoll,“ segir Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Kjöríss. Hins vegar valdi búvörusamningarnir í núverandi mynd miklum áhyggjum. Samningarnir festi í sessi það fyrirkomulag að girða fyrir innflutning á hráefni og samkeppni með mjólkurvörur innanlands.

„Og okkur finnst við hafa verið í þessari baráttu við Mjólkursamsöluna í hátt í 50 ár. Okkur finnst að á þessum áratugum að þá ætti þetta að hafa breyst til batnaðar að einhverju leyti, en það virðist einhvern veginn ekki ná því,“ segir Valdimar.

Endurskoða þurfi samningana

Íslenskir ísframleiðendur sem fréttastofa ræddi við í dag taka undir þessar áhyggjur. Endurskoða þurfi samningana frá grunni og semja upp á nýtt.

„Já mér finnst svolítið hratt farið í þetta. Og bratt farið í að lækka til dæmis tollanna á ís um 40 prósent á einu bretti. Ef þetta verður niðurstaðan í öllum samningalotum sem fram undan eru að þá mun þessi grein eins og okkar, hún mun færast úr landi eða deyja, það er bara svoleiðis,“ segir Valdimar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×