Innlent

Ófullkominn bruni í gasísskáp olli tjaldvagnaslysi

Ófullkominn bruni í gasísskáp varð til þess að eldri hjón misstu meðvitund í tjaldvagni sínum í Djúpadal í Barðastrandarsýslu í upphafi mánaðarins. Þetta er niðurstaða í rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum og Vinnueftirlitsins.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að það hafi einnig haft áhrif að gasbúnaðurinn var í lokuðu rými en við þennan ófullkomna gasbruna myndaðist mikið kolmónoxíð inni í tjaldvagningum. Það leiddi aftur til þess að hjónin, sem voru sofandi í vagninum, misstu meðvitund.

Þau voru flutt með þyrlu á Landspítalann en hafa nú verið útskrifuð af sjúkrahúsi og eru óðum að ná bata. Lögreglan á Vestfjörðum hvetur þá sem nota gasbúnað að kynna sér ráðgjöf á heimasíðu Vinnueftirlitsins eða leita eftir aðstoð fagmanna um uppsetningu gasbúnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×