Innlent

Ævintýri djúpt í Langjökli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Þar til led-ljósum hefur verið komið fyrir í ísnum eru undirheimar jökulsins lýstir upp með jólaseríum. Loftræstirör í veggnum víkja og göngin breikka er vinnuvélarnar hafa unnið sitt verk. Fjær sést í gangamunnann.
Þar til led-ljósum hefur verið komið fyrir í ísnum eru undirheimar jökulsins lýstir upp með jólaseríum. Loftræstirör í veggnum víkja og göngin breikka er vinnuvélarnar hafa unnið sitt verk. Fjær sést í gangamunnann. Fréttablaðið/Stefán
„Það hefur gengið á ýmsu en við höfum ekki rekist á neina óyfirstíganlega veggi,“ segir Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Icecave, sem í sumar opnar almenningi aðgang að iðrum Langjökuls.

Sigurður segir að þótt væntingar um aðsókn hafi verið hófstilltar fyrir opnunarárið streymi bókanir inn. „Það eru mest allt útlendingar en Íslendingar eru þó aðeins byrjaðir að taka við sér í tengslum við vaxandi umfjöllun.“

Alls verða göngin nær 600 metrar og ná um 200 metra inn í jökulinn. Áætlað er að um tíu vinnudagar séu eftir við gröft.





Sigurður segir að þegar allar vélar séu farnar út verði gengið frá endanlegu útliti og lýsingu sem felld er inn í ísinn. Auk kapellu sem þegar er komin verða nokkur önnur stór rými, meðal annars kvikmyndasalur.

„Á einum stað ætlum við að leika okkur aðeins með ísinn og grafa út súlur sem við lýsum að innan,“ segir hann.

Hluti af mannskapnum sem starfar í Langjökli við gangamunnann. Þeir kalla sig Ísjötna.Fréttablaðið/Stefán
Náttúran sjálf á að verða í forgrunni. „Við erum fyrst og fremst að sýna fólki jökul að innan en kryddum með sögum og munum tengdum jöklinum,“ segir Sigurður.

Tvær sprungur hafa orðið á vegi gangagerðarmannanna. Sigurður segir ekkert að óttast þar sem göngin liggi nærri botni sprungnanna, um 25 til 30 metrum undir yfirborði jökulsins. Yfir stærri sprunguna verði rekaviðarbrú með þaki vegna hrunhættu að sumarlagi. „Fólk mun geta gengið þarna í gegn í öruggu umhverfi.“

Í boði verða ferðir allt árið í íshvelfingarnar. Frá jökulröndinni er verðið 17.900 krónur en með þyrlum úr Reykjavík kostar 140 þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×