Innlent

Falleg ugla situr fyrir hjá Mosfellingi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Uglan virðist hafa lítið á móti félagsskap Sigþórs sem þarf að komast nálægt henni til að ná mynd á litlu Olympus myndavélina sína.
Uglan virðist hafa lítið á móti félagsskap Sigþórs sem þarf að komast nálægt henni til að ná mynd á litlu Olympus myndavélina sína. Mynd/Sigþór Hólm
„Ég tek þessar myndir á pínulitla Olympus vél sem nær ekki neitt. Það er ekki einu sinni linsa,“ segir Mosfellingurinn Sigþór Hólm Þórarinsson. Hann hefur orðið þess aðnjótandi undanfarna daga að falleg ugla hefur gert sig heimankomna í bakgarðinum hjá honum.

Sigþór segir blaðamanni frá því að hann hafi rosalega gaman af heimsóknum uglunnar og reyndar annarrar til viðbótar. Önnur ugla, hvít og stór, hefur einnig verið fastagestur í garðinum.

Uglan er ekki bundin við bekkinn í garði Sigþórs. Smellið á myndina til að skoða hana stærri.Mynd/Sigþór Hólm
„Hún er líklega snægugla en rosalega stygg. Ég sé hana annað slagið en hún flýgur í burtu um leið og hún sér mig,“ segir Sigþór. Sökum þess að myndavélabúnaður hans er ekki sá flottasti í bransanum þarf hann að komast nærri myndaefni sínu.

„Nú verð ég að fara að fá mér almennilega myndavél,“ segir Sigþórs hlæjandi og segir alls ekki eiga að titla sig áhugaljósmyndara. Hann eigi einfaldlega myndavél og taki stundum myndir.

Sigþór býr í Mosfellsbæ en garðurinn snýr í raun út í skóg. Hann hafi gefið fuglunum að borða og í það sæki uglurnar líka.

„Það er ótrúlegt að hún skildi stilla sér svona flott upp á bekk,“ segir Sigþór sem tók meðfylgjandi myndir á fimmtudaginn. Ugluna, vinsælasta gestinn á heimilinu, sá hann hins vegar síðast í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×