Innlent

Lýsir eftir innbrotsþjófi sem „gleymdi kúbeini og nælonsokki“

Atli Ísleifsson skrifar
Síðast var brotist inn á Nýbýlavegi 8 í nótt en myndbandið er frá 8. febrúar síðastliðinn.
Síðast var brotist inn á Nýbýlavegi 8 í nótt en myndbandið er frá 8. febrúar síðastliðinn.
„Maðurinn gleymdi þarna hlutum og mér dettur engin önnur leið í hug til að hafa uppi á honum svo að við getum skilað þeim,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, umsjónarmaður byggingarinnar á Nýbýlavegi 8, sem hefur birt myndband af innbrotsþjófi úr öryggismyndavél á Facebook-síðu sinni.

Sverrir Einar segir að búið sé að fara inn í fjölmargar verslanir og skrifstofur þarna síðustu mánuði. „Þetta virðist alltaf vera sami maðurinn. Nú náðum við honum á öryggismyndavél og svo virðist sem hann hafi gleymt kúbeini, nælonsokki og fleiru og við myndum gjarnan vilja koma þeim munum til hans.“

Sverrir Einar segir Serrano, Nan, Domusnova fasteignasala, blómabúð, Herbalife og fleiri fyrirtæki öll vera með verslanir eða skrifstofur á Nýbýlavegi 8. „Það er búið að fara inn í meira og minna öll þessi fyrirtæki. Hann hefur ekki verið að stela miklu en skemmdirnar eru alltaf miklar. Auk þess er alltaf leiðinlegt að koma að brotnum hurðum og svo framvegis.“

Hann segir að maðurinn hafi ekki haft mikið upp úr krafsinu í öll þessi skipti, en geri ráð fyrir að sá hafi brotist inn tíu til fimmtán sinnum á síðustu mánuðum. „Sverrir segir að samband hafi verið haft við lögreglu og að hún sé að reyna sitt besta til að leysa málið. „Þeir hafa þó enn ekki haft uppi á þessum aðila. Ég hugsa að þetta sé bara einn aðili.“

Myndbandið á Facebook-síðu Sverris Einars er frá 8. febrúar, en hann segir að síðast hafi verið brotist inn í húsið í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×