Innlent

Mikil rykmengun í borginni

Á álagstímum hefur rykmengun í Reykjavík farið yfir 500 míkrógrömm á rúmmetra.
Á álagstímum hefur rykmengun í Reykjavík farið yfir 500 míkrógrömm á rúmmetra.

Mikil rykmengun hefur mælst í Reykjavík síðustu daga, að sögn Lúðvíks Gústafssonar hjá mengunarvarnasviði Umhverfis­sviðs. Mest varð mengunin á álagstímum í umferðinni, en þá fór hún yfir 500 míkrógrömm á rúmmetra. Veður hefur verið þurrt og stillt og margir á nagladekkjum sem auka enn á mengunina.

"Ástandið í kringum helstu umferðaræðar borgarinnar var ekki gott þegar umferðin var sem mest enda sást mengunin greinilega," segir Lúðvík. Hún fór þó ekki yfir hættumörk, enda var aðeins um tímabundna toppa að ræða.

Síðasta sólarhringinn eða svo hefur loftvogin staðið hátt hér á landi, að sögn Einars Sveinbjörnssonar verðurfræðings. Þannig mældist loftþrýstingur 1.048 hektó-pasköl í Bolungarvík á miðvikudagskvöld. Er það hæsta staða loftvogar hérlendis síðan í apríl 1991, en þá sýndu loftvogir allt að 1.050 hPa.

Hár loftþrýstingur að þessu sinni er af völdum öflugs og víðáttumikils háþrýstisvæðis sem undanfarna daga hefur verið suðvestur og vestur af Íslandi. Það er nú farið að gefa sig og eftir helgi er því spáð að öllu hefðbundnari lægðir verði búnar að leysa háþrýstisvæðið af hólmi, samkvæmt upplýsingum Einars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×