Erlent

Sleppti páskamessu í fyrsta sinn

Fjarvera páfa varpaði skugga á páskahátíðarhöldin í Páfagarði. Í fyrsta sinn á ferli sínum flutti hann ekki hefðbundna páskamessu sína í dag. Þúsundir pílagríma biðu þess á Péturstorginu í morgun að Jóhannes Páll páfi annar flytti þar páskamessu sína eins og til stóð. Eftir forföll það sem af var páskahátíðarinnar var hans vænst í dag en þær vonir urðu að engu. Tíu mínútum eftir að páfi átti að birtast var enn dregið fyrir gluggana á íbúð hans. Myndavélar sjónarpsstöðvar Vatíkansins beindu linsum sínum að glugganum enda átti að sýna beint frá messunni þó að hún hefði ekki verið staðfest. Útsendingunni var aflýst og eftir klukkustundarbið hélt skarinn á torginu á brott. Þetta er í fyrsta sinn í 27 ár, frá því að Jóhannes Páll páfi tók við embætti, sem hann flytur ekki páskamessu og fjarvera hans í dag varð þess valdandi að kvittur komst á kreik um að heilsu hans hefði enn á ný hrakað. Talsmenn Páfagarðs segjast ekki vita til þess. Heilsubrestur páfa hefur sett mark sitt á páskahátíðina í Páfagarði. Hann hefur látið staðgengla fylla skarð sitt og í gær þegar hann birtist í glugga íbúðarinnar sinnar gat hann ekki flutt blessun. Allt sem heyrðist var hryglandi enda er hann enn með slöngu þrædda í hálsinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×