Sport

Kaffærðir af Króötum

Íslenska landsliðið í knattspyrnu situr enn á botni 8. riðils undankeppni HM 2006 ásamt Möltu með eitt stig úr fimm leikjum eftir tap gegn Króötum, 4-0, í Zagreb á laugardaginn. Íslenska liðið, sem lék án síns besta manns, Eiðs Smára Guðjohnsen, átti aldrei möguleika gegn sprækum Króötum sem hefði með aðeins meiri einbeitingu getað unnið enn stærri sigur. Það er óhætt að segja að einn hlutur, einbeitingarleysi í föstum leikatriðum hafi gert gæfumuninn því íslenska liðið fékk á sig þrjú mörk eftir horn eða aukaspyrnur. Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson hentu þriggja manna vörninni, sem hafði ekki gefið góða raun í undanförnum leikjum. fyrir róða og stilltu upp fjögurra manna varnarlínu í staðinn. Þessi breyting þeirra skilaði sér í því að íslenska liðið var þétt fyrir þegar Króatar voru með boltann og gaf fá færi á sér. Króatar náðu ekki að skapa sér nein færi að ráði úr opnum færum en þeir óðu hins vegar í færum þegar þeir fengu horn og aukaspyrnur. Íslensku leikmönnunum virtist gjörsamlega vera fyrirmunað að verjast almennilega og það var banabiti liðsins í leiknum. Sóknarleikur íslenska liðsins var, eins og búast mátti við í fjarveru Eiðs Smára, lamaður. Íslenska liðið fékk tvö færi, eitt í hvorum hálfleik, en fyrir utan það höfðu varnarmenn króatíska liðsins það afskaplega náðugt. Það verður þó ekki tekið af leikmönnum íslenska liðsins að þeir börðust eins og ljón allan leikinn. Liðið var mun þéttara varnarlega heldur en það hefur verið í síðustu leikjum en eins og áður sagði var það dekkningin í föstum leikatriðum sem fór með leikinn. Ásgeir og Logi hljóta að þurfa að velta því fyrir sér hvernig hægt er að vinna bug á því meini því íslenska liðið er ekki það gott að það geti sleppt því að dekka menn inni í teig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×