Innlent

Allt of mikið af pólitískum fjárveitingum

Fulltrúar hópsins afhentu Katrínu Jakobsdóttur undirskriftirnar 544 í menntamálaráðuneytinu í gær. Þórólfur er annar frá hægri.
Fulltrúar hópsins afhentu Katrínu Jakobsdóttur undirskriftirnar 544 í menntamálaráðuneytinu í gær. Þórólfur er annar frá hægri. Fréttablaðið/valli
Ungir vísindamenn flýja land af því að styrktarfé til rannsókna er af svo skornum skammti. 544 vísinda- og fræðimenn skora á menntamálaráðherra að gera bragarbót á. Telja fjárveitingar allt of pólitískar.

„Það er svo mikilvægt að veita fjármagninu í bestu verkefnin, til bestu vísindamannanna og að við gerum það á gagnsæjan hátt. Við eigum að hætta að úthluta fjármagninu pólitískt eins og við höfum verið að gera,“ segir Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði.

Þórólfur er í hópi sex vísindamanna sem í gær afhentu Katrínu Jakobsdóttur undirskriftir 544 vísinda- og fræðimanna til stuðnings samkeppnissjóðum á vegum hins opinbera.

„Helsti vísindasjóður grunnvísinda, Rannsóknasjóður, hefur staðið í stað undanfarin ár hvað krónutölu varðar en lækkað umtalsvert að raungildi.

Og nú eru farin að sjást merki þess að þetta sé að hafa áhrif á vísindastörf á Íslandi,“ segir í áskoruninni til ráðherra sem fylgdi undirskriftalistanum. Þar er sérstaklega vísað til nýrra talna sem sýna að vísindagreinum eftir Íslendinga í ritrýndum fræðiritum er tekið að fækka.

Þórólfur segir að vandamálið sem við er að etja sé margþætt. Í fyrsta lagi séu sjóðirnir sem veitt er úr nánast tómir.

„Þrjátíu til fjörutíu prósent þeirra umsókna sem berast eru nógu góðar til að það væri eðlilegt að þær fengju styrk. Í staðinn er bara til fjármagn fyrir örfáar þeirra. Þarna myndast flöskuháls í vísindasamfélaginu,“ segir hann.

Þetta bitni svo helst á ungum vísindamönnum og þar sem háskólarnir á Íslandi séu undirfjármagnaðir verði ekki til þar nýjar stöður.

„Þess vegna er unga vísindafólkið okkar að fara úr landi,“ segir Þórólfur. Kynslóð íslenskra vísindamanna sé að hluta til horfin og það þoli enga bið að endurheimta hana. „Einfaldast og fljótlegast er auðvitað að efla samkeppnissjóði Rannís.“

Enn fremur sé mjög mikilvægt að efla nýsköpun og þróunarstarf og endurskoða allt það kerfi. Það sé í raun eina leiðin út úr kreppunni.

Að síðustu segir Þórólfur að það fjármagn sem þó er veitt til vísindamanna á Íslandi nýtist alls ekki nógu vel vegna þess að slíkar úthlutanir séu allt of pólitískar.

„Það er allt of mikið sem fer í gegnum pólitíska kanala, beint eða óbeint. Það er ekki gagnsætt kerfi. Eftir hvaða mælistiku er fjármagni til rannsókna úthlutað þegar því er ekki úthlutað eftir gæðum umsókna og hæfni fræðimannanna sem sækja um? Ég er sannfærður um að það fer mikið af fjármagni til spillis vegna þess.“

Þórólfur segir að mjög auðvelt hafi verið að fá vísinda- og fræðimenn til að leggja nafn sitt við áskorunina. Rúmlega fimm hundruð nöfn hafi safnast á örskömmum tíma.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×