Erlent

Segir stuðning við Grænlendinga svar við ásælni Rússa og Kínverja

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kim Kielsen og Carla Sands í bandaríska sendiherrabústaðnum í Kaupmannahöfn í fyrra þegar hún tók á móti sendinefnd Grænlendinga.
Kim Kielsen og Carla Sands í bandaríska sendiherrabústaðnum í Kaupmannahöfn í fyrra þegar hún tók á móti sendinefnd Grænlendinga. Mynd/Sendiráð Bandaríkjanna í Danmörku.

Efnahagsaðstoð Bandaríkjastjórnar við Grænlendinga er svar við aukinni ásælni bæði Rússa og Kínverja á norðurslóðum. Þetta má sjá í grein sem sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, Carla Sands, birtir á heimasíðu sendiráðsins í Kaupmannahöfn.

Carla Sands hefur sýnt málefnum Grænlands mikinn áhuga eftir að hún tók við sendiherrastarfinu í árslok 2017. Hún gegndi lykilhlutverki í að koma styrknum í kring og fá Kim Kielsen forsætisráðherra til að þiggja hann. Carla varð þekkt sem leikkona og lék meðal annars í nokkrum þáttum í sjónvarpsseríunni The Bold and the Beautiful. Hún er ekkja fasteignamógúlsins Fred Sands og gaf háar fjárhæðir í kosningasjóði Donalds Trump auk þess að skipuleggja fjáröflunarsamkomur fyrir kosningabaráttu Trumps.

Kim Kielsen og Carla Sands í garði bandaríska sendiherrabústaðarins Rydhave í útjaðri Kaupmannahafnar þann 26. júní í fyrra.Mynd/Sendiráð Bandaríkjanna.

Í grein sinni rekur Carla Sands hvernig margar þjóðir og samfélög á norðurslóðum, þar á meðal á Grænlandi, sjái ný tækifæri með mildara loftslagi og opnun nýrra siglingaleiða, en á sama tíma veki hernaðarlegt mikilvægi svæðisins áhuga stórvelda.

„Sum ríki reyna að setja ný viðmið sem myndu móta svæðið að þeirra mynd. Við verðum að vakna upp við þennan veruleika,“ segir sendiherrann.

Meðan Grænland standi frammi fyrir nýju framfaraskeiði séu stjórnvöld sem starfi eftir öðrum gildum að leita að tækifærum til að komast til áhrifa á svæðinu.

„Sem norðurslóðaþjóð og bandamaður til langs tíma vilja Bandaríkin ekkert annað sjá en að Grænland og norðurslóðir dafni, en sú þróun getur ekki verið á kostnað öryggis eða sjálfbærni á svæðinu,“ segir Carla.

Carla Sands og Kim Kielsen skoða kort af norðurslóðum í bandaríska sendiherrabústaðnum.Mynd/Sendiráð Bandaríkjanna.

Hún segir að árásargjörn hegðun Rússlands og aukin hervæðing þess á norðurslóðum veki athygli á heimsvísu. Rússar hafi endurreist gamlar herstöðvar frá árum kaldastríðsins og komið nýjum á fót með ströndum Íshafsins.

Þá hafi Alþýðulýðveldið Kína skilgreint sjálft sig sem „nær norðurslóðaríki“ þrátt fyrir að næstum 1.500 kílómetrar skilji að Kína og norðurslóðir. Alþýðulýðveldið reyni að ná fótfestu á svæðinu með ýmsum aðgerðum, sem sendiherrann rekur, þar á meðal í Bandaríkjunum, á Íslandi, Grænlandi og Kanada.

Kína freisti þess að byggja upp Silkileið norðurslóða. Þessi nærvera gæti gert Kínverjum kleift að beita kúgunartilburðum sínum á svæðinu og efla þar eigin efnahagslega hagsmuni. Þeir reyni að ná tangarhaldi á verðmætum auðlindum svæðisins með því að tryggja sér vinnsluleyfi á sjaldgæfum jarðefnum á svæðinu, þar með talið úrani.

Sjá einnig hér: Komu í veg fyrir að Kínverjar keyptu herstöð á Grænlandi

„Ólíkt Rússlandi og Kína er framtíðarsýn Bandaríkjanna á norðurslóðum byggð á gegnsæi, samvinnu og lýðræðislegum gildum. Bandaríkin vilja vera sá aðili sem aðrir velja að vinna með á norðurslóðum og við vonumst til að ná þessu samstarfi með beinni þátttöku Bandaríkjanna sem flýtir fyrir sjálfbærri þróun og velmegun á svæðinu - allt byggt á hugsjónum um góða stjórnarhætti, gegnsæi og virðingu fyrir mannréttindum sem hafa hjálpað frelsiselskandi samfélögum að dafna,“ segir Carla Sands.

Fyrirhuguð opnun ræðismannsskrifstofu í Nuuk muni dýpka og styrkja samskipti Bandaríkjamanna og Grænlendinga.

„Á komandi árum munu Bandaríkin styðja Grænland í að nýta sín miklu tækifæri, opna nýja markaði, auka sjálfbæra ferðaþjónustu og setja nýja staðla fyrir þróun á svæðinu. Ónýttar auðlindir á norðurslóðum eru verulegar og fela í sér olíu og gas, fiskistofna sem eru mikilvægir fyrir matvælaframboð á heimsvísu, sjaldgæf steinefni og síðast en ekki síst fólk sem sækist eftir betri lífskjörum,“ segir sendiherrann.

Frá bandarískum sjónarhóli eigi heimskautasvæðið að vera stöðugt og laust við átök. Bandaríkin muni vinna með bandamönnum sínum í Evrópu og Norður-Ameríku en einnig leggja sitt af mörkum innan Norðurskautsráðsins til að tryggja frið og stöðugleika á svæðinu.

Í viðtali við Stöð 2 í fyrrasumar ræddi Kim Kielsen um mestu innviðauppbyggingu í sögu Grænlands:


Tengdar fréttir

Kielsen kynnti olíukóngum Texas útboð Grænlendinga

Grænlensk stjórnvöld hafa kynnt áætlun um að bjóða út olíuleit á fimm svæðum á næstu tveimur árum, þar á meðal á tveimur við Austur-Grænland, þeirri hlið sem snýr að Íslandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.