Handbolti

Tímabilið í Austurríki flautað af og Guðmundur Hólmar líklega á heimleið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Hólmar (nr. 8) lék með WestWien í tvö ár.
Guðmundur Hólmar (nr. 8) lék með WestWien í tvö ár. vísir/getty

Handboltatímabilið í Austurríki hefur verið blásið af vegna kórónuveirufaraldursins. Ekkert lið verður meistari, engin lið falla og engin lið fara upp um deild.

Guðmundur Hólmar Helgason er eini Íslendingurinn sem leikur í Austurríki, með WestWien í höfuðborginni. Samningur hans við félagið er að renna út og ljóst að hann hefur leikið sinn síðasta leik í búningi WestWien.

Í samtali við Vísi í dag sagði Guðmundur að ákvörðun austurríska handknattleikssambandsins að hætta keppni hafi ekki komið sér á óvart.

„Það eru þrjár vikur síðan við hættum skipulögðum æfingum saman. Maður sá ekki hvernig þeir ætluðu að gera þetta öðruvísi en svona. Kannski að klára úrslitakeppnina seinna en svo sáu menn hvernig þessi veira þróaðist og það var ekkert annað í spilunum en gera þetta svona,“ sagði Guðmundur.

Fjölskylda Guðmundar heldur sig heima þessa dagana en samkomubann er í gildi í Austurríki.

„Hjá okkur, nálægt Vín, er búið að loka skólum. Þeir eru aðeins búnir að herða þetta. Ef þú ferð í matvörubúð eða meðal almennings þarftu að vera með grímu. Samkomubannið hérna miðast við fimm manns. Ég á tvo stráka og við feðgarnir erum ansi góðir hérna heima og frúin nær að vinna,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur Hólmar tekur á Spánverjanum Raúl Entrerríos í leik á HM 2017 í Frakklandi.vísir/getty

Þegar keppni var hætt átti WestWien fjóra leiki eftir í austurrísku úrvalsdeildinni auk úrslitakeppninnar. Liðið var hins vegar dottið úr leik í bikarkeppninni.

„Við höfðum bara tapað einum leik eftir áramót og það var í bikarnum. Við vorum taplausir í deildinni og það var ágætis gangur í þessu. Þetta er súrt en ekkert við þessu að segja. Svo bjóst maður alveg við þessu,“ sagði Guðmundur.

Á síðasta tímabili voru fjórir Íslendingar bara hjá WestWien; Guðmundur, Ólafur Bjarki Ragnarsson, Viggó Kristjánsson og þjálfarinn Hannes Jón Jónsson sem var látinn taka pokann sinn um mitt tímabil.

„Þetta var skammlíf Íslendinganýlenda. Þeir létu Hannes fara um áramótin og menn voru ekki sáttir við þá ákvörðun enda var árangurinn þokkalegur og tímabilið bara hálfnað,“ sagði Guðmundur en Viggó fór til Þýskalands eftir síðasta tímabil og Ólafur Bjarki kom aftur heim og gekk í raðir Stjörnunnar.

Guðmundur Hólmar í loftköstum.vísir/getty

Eins og áður sagði verður Guðmundur ekki áfram hjá WestWien og hann er nú í leit að nýju liði. Góðar líkur eru á hann leiki í Olís-deildinni á næsta tímabili.

„Við erum að skoða þetta. Maður vill ekki vera kvarta yfir sínum málum þegar ástandið er svona í heiminum en þessi mál fóru á ís þegar veiran fór á flug. Við ætlum bara að bíða og sjá en megum ekki gera það of lengi,“ sagði Guðmundur.

„Konan er að vinna heima fyrir íslenskt fyrirtæki. Við erum alvarlega að skoða að fara heim.“

Guðmundur segist hafa verið í viðræðum við annað lið í Austurríki en það mál sé á ís eins og er.

„Það er ekki komið endanlegt svar frá þeim eða ákvörðun frá okkur,“ sagði Akureyringurinn. Aðspurður segir hann líklegra en ekki að hann spili heima á næsta tímabili. „Ætli það séu ekki meiri líkur en minni.“

Guðmundur hefur verið í atvinnumennsku undanfarin fjögur ár. Fyrstu tvö árin lék hann með Cesson-Rennes í Frakklandi en gekk svo raðir WestWien 2018. Hér heima lék Guðmundur með Val og Akureyri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.