Innlent

Yfirgefið og þaklaust hús vekur ugg í Laugarneshverfi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Plötur hafa verið settar fyrir gluggana en börn hafa samt sem áður komist inn í húsið og útigangsmenn í kjallarann.
Plötur hafa verið settar fyrir gluggana en börn hafa samt sem áður komist inn í húsið og útigangsmenn í kjallarann. Vísir/Eyþór
Enginn hefur búið í húsinu að Hraunteigi 3 í Laugarneshverfinu í níu ár. Hvorki hefur verið hugsað um húsið né lóðina á þessum tíma.

„Það hefur ýmislegt gengið á,“ segir Edda Holmberg sem býr í húsinu hliðina. Hún kveður þolinmæðina á þrotum.

„Það hefur verið rottugangur á lóðinni og í húsinu. Útigangsfólk hefur komið sér fyrir í kjallaranum og ógæfufólk með sprautur. Því hefur fylgt ónæði og löggan hefur ítrekað þurft að skipta sér af því.“

Eigendur hússins sjást sjaldan. Edda segir þá hafa rifið þakið af húsinu fljótlega eftir að þeir keyptu það. Þannig hafi það staðið síðan.

„Börn í hverfinu eru að fara inn í húsið og leika sér. Þetta getur verið stórhættulegt. Þar fyrir utan er þetta lýti í götunni, illgresið vex hér til dæmis yfir í aðra garða,“ segir Edda.

Fyrir nokkrum árum hringdi Edda í byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar þegar allar rúður í húsinu voru brotnar.

„Það komu starfsmenn frá borginni og settu plötur fyrir gluggana. Ég spurði hvort það ætti ekkert að gera varðandi garðinn og mér var bent á að við nágrannarnir gætum hóað okkur saman í götunni og þrifið og tekið til á lóðinni.“

Húsið við HraunteigVísir/Eyþór
Annars hefur borgin ekki komið að málinu svo Edda þekki til. Hún vakti athygli á málinu í hópi íbúa Laugarneshverfis á Facebook. Það stóð ekki á viðbrögðum enda virðast margir orðnir þreyttir á drusluskapnum.

Heiðar Ingi Svansson, formaður hverfisráðs Laugarneshverfis, hvetur fólk til að senda sér formlegt erindi.

„Ég mun taka þetta fyrir á næsta fundi hverfisráðs og við getum þrýst á borgina um einhverjar úrbætur. Þetta ástand hefur varað alltof lengi,“ segir Heiðar.

Samkvæmt mannvirkjalögum er heimilt að beita dagssektum allt að fimm hundruð þúsund krónum sé ásigkomulag, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss ábótavant, það stafar hætta af því eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingafulltrúa. Ekki náðist í byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar við vinnslu fréttarinnar. 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júlí 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×