Íslandsmeistarar KR ætla að fara sömu leið og bikarmeistarar Stjörnunnar til að safna pening fyrir körfuboltadeildina eftir að úrslitakeppnin datt upp fyrir.
Engin úrslitakeppni fer fram í Domino´s deildunum í körfubolta í ár og því fylgir gríðarlegt tekjutap fyrir þau lið sem hafa veðjað á það að komast langt í úrslitakeppninni í ár.
Stjarnan ákvað að fara þá leið í síðustu viku að selja miða á leik sem fer aldrei fram og setja með því áhorfendamet í Mathús Garðabæjarhöllinni.
KR hefur nú sett af stað samskonar söfnun undir merkjunum: „Stöndum Saman – Sláum aðsóknarmet í DHL-höllina!“
„Í ljósi þess að úrslitakeppnin hefur verið blásin af og KKD KR orðið fyrir verulegum tekjumissi þá ætlum við að slá aðsóknarmetið í DHL-Höllinni með því að selja miða á leik sem mun ekki fara fram eins og gefur að skilja. Aðsóknarmetið er 2500 manns og það er von deildarinnar að sem flestir taki þátt í þessu verkefni og saman slái það met og um leið styrki við starf og rekstur deildarinnar,“ segir í kynningunni á viðburðinum.
Hægt er að kaupa tvenns konar miða en með flottari miðanum fá menn líka ímyndaðan hamborgara með.
Miði á leikinn kostar 2500 krónur en það kostar 4000 krónur að fá burger, drykk og miða á leikinn sem fer auðvitað aldrei fram.
Það má sjá meira um þetta hér fyrir neðan.