Handbolti

Berglind segir ÍR-ingum að skoða jafnréttisstefnu sína

Sindri Sverrisson skrifar
Kvennalið ÍR lék í næstefstu deild í vetur, þar til að hlé var gert vegna samkomubanns út af kórónuveirunni.
Kvennalið ÍR lék í næstefstu deild í vetur, þar til að hlé var gert vegna samkomubanns út af kórónuveirunni. FACEBOOK/ÍR HANDBOLTI

Berglind Hrund Jónasdóttir, markvörður Stjörnunnar í fótbolta og uppalinn ÍR-ingur, harmar þá ákvörðun síns gamla félags að leggja niður kvennalið ÍR í handbolta.

Berglind æfði handbolta og fótbolta hjá ÍR á árunum 2007-2011 og kveðst hafa fylgst vel með vinkonum sínum í ÍR síðan þá.

„Ég hef fylgst með þeim síðan þá, mætt á leiki, stutt þær eða fylgst með á netinu. Þetta eru stelpur sem lögðu allt sitt í að verða meistaraflokkur kvenna hjá ÍR í framtíðinni, þar sem lítil sem engin kvenmanns fyrirmynd var í félaginu,“ segir Berglind meðal annars í skrifum sínum sem hún birtir á Twitter.

„Í dag eru yngri stelpur í félaginu loksins með það sem þær dreymdi um að hafa fyrir framan nefið á sér, kvenmanns fyrirmyndir!“ segir Berglind. Hún endar á að skora á stjórn handknattleiksdeildar ÍR að skoða jafnréttisstefnu félagsins sem gefin var út fyrir 16 mánuðum. Skrif Berglindar má sjá í heild hér að neðan.

Sigurður Rúnarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR, greindi frá því í Sportinu í dag í síðustu viku að kvennalið félagsins yrði ekki áfram í Grill 66-deildinni næsta vetur. Þá voru U-lið karla og kvenna hjá félaginu einnig lögð niður, vegna afar bágrar fjárhagsstöðu.

„Við erum búin að vera spila í Grill deildinni. Við erum búin að byggja það að hluta til upp af stelpum í 3. og 4. flokki. Mótsgjöld, þjálfarakostnaður og önnur gjöld eru það há að það réttlætir ekki áframhaldandi veru þar,“ sagði Sigurður í Sportinu í dag, og bætti við: „Ef við ætlum að fá einhverjar tekjur þá þurfum við að halda úti liði í Olís-deildinni og þar er karlaliðið. Staðan er svona núna. Þetta er rekstrarleg ákvörðun og ekkert annað.“


Tengdar fréttir

ÍR dregur kvenna- og U-liðið úr keppni

Handknattleiksdeild ÍR hefur ákveðið að draga kvenna- og U-lið félagsins úr keppni á næstu leiktíð. Þetta staðfesti Sigurður Rúnarsson, formaður handknattleiksdeildar ÍR, í Sportinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×