Handbolti

Nýr þjálfari ÍR: „Hef sagt að ÍR hefur aldrei átt pening en þetta er í fyrsta sinn sem þeir viðurkenna það“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristinn Björgúlfsson er nýráðinn þjálfari ÍR. Hann tekur við erfiðu búi í sumar.
Kristinn Björgúlfsson er nýráðinn þjálfari ÍR. Hann tekur við erfiðu búi í sumar. vísir/s2s

Kristinn Björgúlfsson tekur við karlaliði ÍR í sumar í Olís-deild karla en þetta var tilkynnt á dögunum er ÍR ákvað að fara í ákveðnar breytingar. Skera varð niður og Kristinn fær það verðuga verkefni að byggja liðið upp.

Hann var til viðtals í Sportinu í dag þar sem Henry Birgir Gunnarsson fór yfir stöðuna með Kristni sem lauk á dögunum hæstu þjálfaragráðu innan handboltahreyfingarinnar.

Verkefnið leggst vel í hann en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Bjarna Fritzsonar í vetur sem og að þjálfa kvennalið félagsins.

„Ég sagði einhversstaðar að ÍR hefur aldrei átt pening en þetta er í fyrsta skipti sem þeir viðurkenna það. Það verða fleiri lið sem eiga eftir að þurfa að viðurkenna það. Við erum fyrstir og erum heiðarlegir með það. Við eigum nóg af ungum og efnilegum mönnum sem og fullt af mannskap í félaginu,“ sagði Kristinn.

Nú þegar eru þrír leikmenn farnir frá félaginu og óvíst er hvort að fleiri leikmenn yfirgefi Breiðholtið áður en næsta tímabil hefst.

„Þangað til að annað kemur í ljós þá ætla ég að halda öllum og nota þessa ungu stráka sem við eigum. Það er eins og það er. Við þurfum að semja við nokkra og ég óska þeim sem eru farnir góðs gengis. Þeir höfðu heimild til þess og vonandi koma þeir einhverntímann aftur í félagið.“

Klippa: Sportið í dag: Kristinn Björgúlfsson um starfið hjá ÍR

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×