Körfubolti

Eigandi LA Clippers búinn að kaupa höll Showtime liðs Lakers á níunda áratugum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Parish og Larry Bird hjá Boston Celtics í baráttu við þá Kareem Abdul-Jabbar og Magic Johnson hjá Los Angeles Lakers í Forum höllinni í Inglewood. Þessi lið spiluðu marga magnaða leiki í Forum höllinni á níunda áratugnum.
Robert Parish og Larry Bird hjá Boston Celtics í baráttu við þá Kareem Abdul-Jabbar og Magic Johnson hjá Los Angeles Lakers í Forum höllinni í Inglewood. Þessi lið spiluðu marga magnaða leiki í Forum höllinni á níunda áratugnum. Getty/Andrew D. Bernstein

Steve Ballmer, eigandi Los Angeles Clippers, hefur náð samkomulagi um að kaupa The Forum íþróttahöllina í Inglewood en ekki þó svo að Clippers liðið fari að spila heimaleiki sína þar.

Ástæðan fyrir því að Steve Ballmer þurfti að kaupa Forum höllina var til að fá leyfi til að byggja nýja íþróttahöll fyrir Los Angeles Clippers á sama svæði.

Los Angeles Clippers ætlar að byggja nýja átján þúsund manna höll í Inglewood en gömlu eigendur The Forum höfðu staðið í vegi fyrir því.

NFL-liðin Los Angeles Charges og Los Angeles Rams eru búin að byggja nýjan leikvang á svæðinu sem verður tekinn í notkun á næsta tímabili. Nú vill Clippers flytja líka lið sitt til Inglewood og byggja höllina rétt hjá fótboltavellinum.

Steve Ballmer hefur verið með það á stefnuskránni síðan að hann keypti Los Angeles Clippers fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala árið 2014.

Steve Ballmer mun kaupa The Forum höllina á 400 milljónir Bandaríkjadala og borga fyrir hana í peningum en það eru 56 milljarðar íslenskra króna.

Los Angeles Clippers og Los Angeles Lakers deila nú Staples Center og hafa gert það síðan sú höll var tekin í notkun árið 1999.

Áður en Lakers flutti í Staples Center þá lék liðið í 32 ár í Forum höllinni eða frá 1967 til 1999. Lakers vann sex meistaratitla á árum sínum þar og þar fór Showtime lið félagsins á kostum á níunda áratugnum með þá Magic Johnson, Kareem Abdul-Jabbar og James Worthy í fararbroddi.

The Forum mun halda áfram að vera tónleikahöll þar til að nýja íþróttahöll Los Angeles Clippers verður opnuð.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.