Körfubolti

NBA stjarna fór að gráta í kórónuveiruprófinu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donovan Mitchell er á sína þriðja tímabili í NBA-deildinni og hefur spilað allan feril sinn með Utah Jazz.
Donovan Mitchell er á sína þriðja tímabili í NBA-deildinni og hefur spilað allan feril sinn með Utah Jazz. Getty/Alex Goodlett

Donovan Mitchell, stjörnubakvörður Utah Jazz, var annar NBA-leikmaðurinn sem greindist með kórónuveiruna og hann sagði frá sinni upplifun af veirunni í viðtali við „Good Morning America“ á ABC sjónvarpsstöðinni.

Áður en sýni Donovan Mitchell kom út jákvætt þá hafði liðsfélagi hans Rudy Gobert greinst með veiruna sem varð til þess að NBA deildin tók þá risastóru ákvörðun að fresta öllum leikjum í deildinni.

„Ég er ekki með nein einkenni og er ekki veikur. Ég gæti farið út á götu og það myndi enginn vita að ég væri veikur ef það væri ekki opinbert að ég væri með veiruna,“ sagði Donovan Mitchell í morgunþætti ABC.

Donovan Mitchell er stjörnuleikmaður en í vetur var hann með 24,2 stig og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik og er að hækkað meðalskor sitt á þriðja tímabilinu í röð.

„Það er það sem er ógnvekjandi við þessa veiru. Það lítur út fyrir að það sé allt í lagi með þig og þú ert í lagi en þú veist aldrei við hverja þú ert að tala og til hverja þeir fara síðan,“ sagði Donovan.

„Núna skiptir það mestu máli fyrir mig að halda mig í einangrun og smita ekki aðra. Ég hef engin einkenni sem er sérstöku staða. Ég grínast alltaf með það ef fólk spyr að ég væri tilbúinn í sjö leikja seríu á morgun. Ég er heppin með það,“ sagði Donovan Mitchell en hann er 23 ára gamall og í frábæru formi.

Donovan Mitchell er ánægður með að hafa farið í sýnatöku og sérstaklega að hún sé afstaðin því það var ekki skemmtilegt upplifun.

„Hjá okkur þurfti að taka sýni úr kokinu. Það voru líka verstu fimmtán sekúndurnar sem ég hef upplifað. Ég endaði á því að fara að gráta, það runnu tár niður kinnarnar. Þetta var var mjög sérstakt en ég er feginn að hafa klárað þetta,“ sagði Donovan Mitchell en það má sjá viðtalið við hann hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×