Körfubolti

Ó­­­trú­­legur leikur Nets og Hawks, af­mælis­barnið LeBron fór mikinn og Miami lagði Milwaukee

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James fagnaði 36 ára afmælinu með stæl.
LeBron James fagnaði 36 ára afmælinu með stæl. Ronald Cortes/Getty Images

Það var nóg um að vera í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Brooklyn Nets unnu ótrúlegan sigur á Atlanta Hawks í framlengdum leik. LeBron James er hvergi nærri hættur þrátt fyrir að vera á 18. árinu sínu í deildinni og Miami Heat lagði Milwaukee Bucks.

Fyrsta tap Atlanta kom gegn Durant og Kyrie

Það var ekki mikið um vörn er Brooklyn Nets og Atlanta Hawks mættust. Leikurinn endaði 145-141 Nets í vil. Skipti þar sköpum að Nets unnu síðasta fjórðung leiksins með sex stiga mun og þar með leikinn með fjögurra stiga mun. Var þetta fyrsta tap Atlanta á leiktíðinni en þeir hafa sem stendur unnið þrjá leiki og tapað einum á meðan Nets hafa unnið þrjá og tapað tveimur.

Kevin Durant spilaði alls 35 mínútur í liði Nets og var stigahæstur með 33 stig ásamt því að taka 11 fráköst og gefa átta stoðsendingar. Kyrie Irving kom þar á eftir með 25 stig og Joe Harris gerði 23.

Hjá Atlanta áttu Trae Young og John Collins magnaða leiki sóknarlega en Young skoraði 30 stig ásamt því að gefa 11 stoðsendingar. Collins skoraði 30 stig og tók tíu fráköst. Þar á eftir kom Bogdan Bogdanović með 22 stig og Cam Reddish með 20.

Afmælisbarnið allt í öllu hjá meisturunum

Los Angeles Lakers mættu San Antonio Spurs á útivelli og unnu góðan 14 stiga sigur, 121-107. Meistararnir hafa þar með unnið þrjá leiki og tapað tveimur á meðan Spurs hafa unnið tvo og tapað tveimur.

Það virðist ekkert ætla að stöðva LeBron James í leit hans að enn einum meistaratitlinum. James er á sínu átjánda ári í deildinni, var að enda við að lenda meistaratitli eftir eitt undarlegasta tímabil í manna minnum og var að hefja nýtt tímabil eftir stysta „sumarfrí“ í sögu deildarinnar. James var einnig að fagna 36 ára afmæli sínu og gerði það með stæl. 

Hann var stigahæstur hjá Lakers með 26 stig. Þar á eftir kom Dannis Schröder með 21 stig og að sjálfsögðu Anthony Davis með 20 stig. Wesley Matthews kom þar á eftir með átján stig.

Heat hitnuðu undir lokin | Þrenna Giannis dugði ekki

Miami Heat vann góðan ellefu stiga sigur á Milwaukee Bucks, 119-108. Leikurinn var í járnum og Bucks yfir fyrir síðasta fjórðung leiksins. Þar fór allt ofan í hjá Heat sem skoraði 31 stig gegn aðeins 17 hjá Bucks og unnu leikinn því á endanum sannfærandi.

Það sem meira er að þá gerðu Heat þetta allt án Jimmy Butler. Tyler Herro og Bam Adebayo fóru fyrir Heat í kvöld. Herro gerði 21 stig og tók fimmtán fráköst. Bam Adebayo gerði 22 stig og gaf tíu stoðsendingar en Goran Dragić var hins vegar stigahæstur með 26 stig.

Hjá Bucks var Giannis Antetokounmpo stigahæstur með 26 stig ásamt því að taka þrettán fráköst og gefa tíu stoðsendingar. Það dugði ekki til að þessu sinni.

Í öðrum leikjum þá skoraði LaMelo Ball 22 stig í óvæntum sigri Hornets á Mavericks. Jaylen Brown átti STÓRLEIK er hann skoraði 42 stig í sigri Boston á Memphis. Brown hefur aldrei skorað fleiri stig í einum og sama leiknum. Los Angeles Clippers unnu svo sannfærandi sigur á Portland Trail Blazers.

Önnur úrslit

Boston Celtics 126 – 107 Memphis Grizzlies

Dallas Mavericks 99 – 118 Charlotte Hornets

Los Angeles Clippers 128 – 105 Portland Trail Blazers




Fleiri fréttir

Sjá meira


×