Sport

Haukur sá tuttugasti í Heiðurshöllina

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur Gunnarsson og Jón Oddur Halldórsson, sem á sínum tíma voru meðal fremstu frjálsíþróttamanna heims úr röðum fatlaðra.
Haukur Gunnarsson og Jón Oddur Halldórsson, sem á sínum tíma voru meðal fremstu frjálsíþróttamanna heims úr röðum fatlaðra. mynd/ÍF/Jón Björn

Haukur Gunnarsson er tuttugasti íþróttamaðurinn sem er tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ. Þetta var tilkynnt á hófi Íþróttamanns ársins í kvöld.

Haukur Gunnarsson er fæddur árið 1966. Hann er spretthlaupari og vann til tveggja verðlauna á Ólympíuleikunum 1984, þá einungis sautján ára gamall.

Fjórum árum síðar, á Ólympíuleikunum í Seoul, kom Haukur, sá og sigraði í 100 metra hlaupi í flokki C7.

Hann var þar af leiðandi fyrsti Íslendingurinn til að vinna til gullverðlauna á leikunum en hann nældi einnig í tvö brons sama ár.

Fjórum árum síðar fékk hann svo brons í 200 metra hlaupi á leikunum sem þá fóru fram í Barcelona.

Valið er venjulega kunngjört á árlegu hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu en vegna samkomutakmarkanna var hófið sýnt í beinni útsendingu á RÚV.

Í heiðurshöllinni nú þegar eru eftirtaldir: Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Ásgeir Friðriksson, Vala Flosadóttir, Jóhannes Jósefsson, Sigurjón Pétursson, Albert Guðmundsson, Kristín Rós Hákonardóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Karl Guðmundsson, Gunnar A. Huseby, Torfi Bryngeirsson, Ríkharður Jónsson, Sigríður Sigurðardóttir, Guðmundur Gíslason, Geir Hallsteinsson, Jón Kaldal, Skúli Óskarsson, Hreinn Halldórsson, Alfreð Gíslason.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.