Körfubolti

Steph Curry raðaði niður 103 þristum í röð og það náðist á myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry er svakalegur skotmaður og klikkar ekki á mörgum opnum skotfærum.
Stephen Curry er svakalegur skotmaður og klikkar ekki á mörgum opnum skotfærum. AP/Kathy Willens

Golden State Warriors færði stuðningsmönnum sínum smá jólagjöf í formi magnaðar skotsýningar hjá stórstjörnunni Stephen Curry.

Stephen Curry er ein allra besta þriggja stiga skytta í sögu NBA-deildarinnar. Hann er þvílík langskytta að margir NBA spekingar segja að hann hafi hreinlega breytt íþróttinni með skottækni sinni.

Það hefur ekki gengið vel hjá Golden State Warriors í byrjun þessa tímabils og Curry missti af nær öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Curry setti þó niður 2500 þristinn sinn í deildarkeppni NBA-deildarinnar í nótt og liðið vann sinn fyrsta sigur.

Stephen Curry er kominn aftur af stað eftir leiðindarmeiðsli og ef marka má nýtt myndband á miðlum Golden State Warriors þá er kappinn ennþá sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna þó hann hafi ekki alveg sýnt það í fyrstu leikjum tímabilsins.

Golden State Warriors setti inn rúmlega fimm mínútna myndband þar sem Stephen Curry sést setja niður 103 þriggja stiga skot í röð.

Curry er að taka þessi skot á æfingu með Golden State Warriors og raðar skotunum niður úr hægra horninu. Það má sjá þetta magnaða myndband hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×