Innlent

Hefur alltaf séð mjög eftir „já“-inu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bjarni Halldór Janusson, fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar.
Bjarni Halldór Janusson, fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar.

Fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar, sem sat á Alþingi þegar Landsréttarmálið var afgreitt snemmsumars 2017, segist alltaf hafa séð mjög eftir því að hafa greitt atkvæði með málinu. Þá segir hann Sjálfstæðisflokkinn hafa beitt aðra stjórnarflokka miklum þrýstingi í málinu á sínum tíma og lýsir hótunum um stjórnarslit „við minnsta tilefni“.

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í morgun dóm dómstólsins frá því í fyrra í prófmáli varðandi skipan Sigríðar Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra á dómurum við Landsrétt vorið 2017. Þannig var endanlega staðfest að skipan fjögurra dómara, sem ekki voru á lista hæfnisnefndar, fram yfir aðra sem þar voru braut gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í dómi yfirdeildarinnar er m.a. fjallað um áber­andi brest í meðferð málsins á Alþing­i á sínum tíma, þar sem ekki var greitt at­kvæði um hvern dóm­ara fyr­ir sig þegar skipan dóm­aranna hlaut þing­lega meðferð. Málið var afgreitt á Alþingi, á sjö tíma hitafundi, í júní 2017 og samþykkt með 31 atkvæði stjórnarmeirihlutans gegn 22 atkvæðum minnihlutans.

Þá voru Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð í ríkisstjórn. Á meðal þeirra sem greiddi atkvæði í málinu var Bjarni Halldór Janusson. Hann var þá 21 árs og varaþingmaður fyrir Viðreisn. Hann greiddi atkvæði með skipan dómaranna eins og aðrir þingmenn stjórnarmeirihlutans en segir frá því á Twitter-reikningi sínum í kvöld að hann hafi ætíð séð eftir því.

Bjarni segir í samtali við Vísi að hann hafi fundið fyrir miklum þrýstingi frá Sjálfstæðisflokknum um að fá málið í gegn og hótunum um stjórnarslit hafi ítrekað verið beitt.

„Í rauninni var þetta þannig að það var óánægja með þetta mál innan þingflokkanna tveggja sem voru í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, sérstaklega hjá varamönnum sem voru þá inni,“ segir Bjarni í samtali við Vísi. Málið hafi strax á þessum tíma hringt ákveðnum viðvörunarbjöllum.

„Það var mjög erfitt að fá að sitja hjá eða styðja frávísunartillögu, sem var þarna talin ígildi vantrausts, sem ég hefði viljað gera. En maður réttlætti þetta fyrir sér. Maður hugsaði: Ókei, ég hef mjög slæma tilfinningu fyrir þessu máli en ef verið er að hóta ríkisstjórnarslitum þá er náttúrulega verið að hrifsa burt málin sem maður vildi sjálfur fá í gegn. En svo er bara takmarkað hvað þú getur gleypt ælunni.“

Fljótlega eftir þetta sagði Bjarni skilið við stjórnmálin. Hann kveðst þó enn hafa ákveðnar skoðanir á því hvaða stefnu Viðreisn ætti að taka, myndi hann aftur ríkisstjórn.

„Þetta er svolítið ástæðan fyrir því að ég ákvað að bakka út úr þingstarfinu. Þó að ég hafi ekki gegnt stöðu innan Viðreisnar síðan 2017 þá þekki ég þar enn mjög marga og hef alla tíð talað fyrir því að verði Viðreisn aftur í ríkisstjórn myndi hún aðra stjórn, ekki með Sjálfstæðisflokknum. Þetta var óheilbrigt samstarf, það voru hótanir um ríkisstjórnarslit við minnstu tilefni. Það er hvorki lýðræðislegt né heilbrigt fyrir starfsandann.“


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra segir fyrrverandi dómsmálaráðherra hafa axlað ábyrgð

Forsætisráðherra segir dóm Mannréttindadómstólsins verða skoðaðan ítarlega af stjórnvöldum. Fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi sagt af sér eftir fyrri dóm undirdeildar og því axlað ábyrgð á málinu, Dómsmálaráðherra segir dóminn nú ekki kalla á viðbrögð að hálfu stjórnvalda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×