Umfjöllun: Ísland - Lúxemborg 90-76 | Öflugur viðsnúningur skilaði íslenskum sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason skoraði sextán af sautján stigum sínum í seinni hálfleik.
Tryggvi Snær Hlinason skoraði sextán af sautján stigum sínum í seinni hálfleik. vísir/bára

Ísland vann Lúxemborg, 90-76, í Bratislava í Slóvakíu í forkeppni heimsmeistaramóts karla í körfubolta í dag. Með sigrinum komust Íslendingar á topp B-riðils. Þeir mæta Kósóvóum á laugardaginn í seinni leik sínum í þessari landsleikjahrinu.

Íslenska liðið náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik en lék mjög vel í þeim seinni sem það vann, 56-38. Tryggvi Snær Hlinason var atkvæðamestur Íslendinga með sautján stig og ellefu fráköst.

Clancy Rugg var langstigahæstur í liði Lúxemborgar með 26 stig. Hann þreyttist hins vegar eftir því sem leið á leikinn og skoraði ekki stig í 4. leikhluta.

Jón Axel Guðmundsson skoraði fjórtán stig fyrir Ísland, tók níu fráköst og stal boltanum fjórum sinnum. Ægir Þór Steinarsson skoraði þrettán stig og gaf fimm stoðsendingar og Ísland vann þær mínútur sem hann spilaði með 20 stigum.

Elvar Már Friðriksson skoraði þrettán stig, Sigtryggur Arnar Björnsson tólf, Kári Jónsson tíu og Hörður Axel Vilhjálmsson níu. Sjö þeirra komu í röð í byrjun seinni hálfleiks og trekktu íslenska liðið í gang.

Þrátt fyrir skelfilega skotnýtingu (26,5 prósent) og að Tryggvi væri með fleiri villur (2) en stig (1) var Ísland bara fjórum stigum undir, 34-38, í hálfleik.

Sigtryggur Arnar var góður í 1. leikhluta og Kári átti flottan kafla undir lok 2. leikhluta en annars var sóknarleikur íslenska liðsins afleitur í fyrri hálfleik. Ísland skoraði ellefu stig af vítalínunni í 1. leikhluta en aðeins tvö stig í 2. leikhluta. Þar skoraði íslenska liðið bara ellefu stig í heildina.

Vörnin var fín fyrir utan að Íslendingum gekk á köflum erfiðlega að eiga við Rugg sem skoraði fimmtán stig í fyrri hálfleik.

Lúxemborg komst sjö stigum yfir, 40-47, í upphafi seinni hálfleiks en þá tók Hörður Axel til sinna ráða, skoraði sjö stig í röð og jafnaði, 47-47.

Þessi rispa Harðar Axels kveikti heldur betur í íslenska liðinu sem bætti í og náði 18-1 kafla. Tryggvi hitnaði svo um munaði og tróð boltanum í gríð og erg og Ægir kom inn á með mikinn kraft.

Ísland vann 3. leikhlutann með ellefu stigum, 32-21, og var með sjö stiga forskot eftir 3. leikhluta, 66-59. 

Íslendingar slökuðu ekkert á í 4. leikhluta. Rugg var að þrotum kominn og ekki hjálpaði til fyrir Lúxemborg þegar Alex Laurent fékk fína fimmtu villu.

Lúxemborg náði aldrei að komast nær Íslandi en sex stigum og mestur varð munurinn nítján stig, 90-71. Íslendingar unnu á endanum fjórtán stiga sigur, 90-76, og geta þakkað hann góðri frammistöðu í seinni hálfleik.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.