Ísland 53-74 Búlgaría | Fyrri hálfleikur varð stelpunum að falli

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Ísland - Búlgaría, Undankeppni EM 2021 kvenna. Vetur 2019-2020. Körfubolti.
Ísland - Búlgaría, Undankeppni EM 2021 kvenna. Vetur 2019-2020. Körfubolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta átti annan slakan leik í dag gegn Búlgaríu í undankeppninni fyrir EuroBasket 2021. Liðið hitti hrikalega illa úr skotum sínum í leiknum á sama tíma og Búlgarir spilaði vel í 40 mínútur. Leiknum lauk með öruggum 21 stiga sigri búlgarska liðsins, 53-74.

Liðið vantaði tvo risastóra pósta í leiknum, þær Helenu Sverrisdóttur, einn fremsta leikmann Íslands fyrr og síðar, og Hildi Björgu Kjartansdóttur, þá sem margir tala um að sé að fara taka við sem fremsti leikmaður Íslands þegar Helena hættir. Helena er í barneignaleyfi á meðan að Hildur Björg er meidd. Aðrar í liðinu þurftu því að stíga upp í þessum leik gegn Búlgaríu.

Leikurinn hófst á slökum tilburðum Íslands á meðan að Búlgaría virtist reiðubúið í leikinn frá fyrstu mínútu. Á meðan að Ísland barðist við að finna taktinn bæði sóknarlega og varnarlega voru andstæðingarnir á góðu róli frá upphafi og leiddu fljótlega með meira en tíu stigum. Leikhlé Benna Gumm, þjálfara íslenska landsliðsins, virtust ekki gera mikið fyrir liðið enda héldu þær grænklæddu frá Búlgaríu áfram að raða niður körfunum.

Sú eina innan íslenska liðsins sem virtist með einhverju lífsmarki var Sara Rún Hinriksdóttir, sem er jafnframt sú eina í liðinu sem spilar erlendis fyrir atvinnumannalið. Sara Rún hefur mátt æfa áfram með sínu breska liði Leicester Riders á meðan að allar hinar í íslenska landsliðinu hafa mest þurft að æfa einar undanfarnar vikur vegna hertra samkomureglna hérna á Íslandi. Sara Rún tók liðið upp á herðar sínar í leiknum og endaði á að skora yfir helming allra stiga íslenska kvennalandsliðsins.

Í seinni hálfleik kom smá líf í íslenska landsliðið og þær gátu loks sýnt einhverja góða takta, þó ekki nema væri í nokkrar mínútur í senn. Munurinn var þó orðinn of mikill og Búlgarar héldu áfram að skora úr galopnum þristum og skotum til að halda aftur af íslenska áhlaupinu.

Þó að leikurinn hafi farið illa má þó gleðjast yfir að þær íslensku hættu ekki að berjast þó að leikurinn væri tapaður og þær áttu aðeins betri leik núna en gegn Slóveníu fyrir tveim dögum síðan.

Af hverju vann Búlgaría?

Þær búlgörsku mættu einbeittar og reiðubúnar til leiks og spiluðu vel allan leikinn. Búlgaría sótti vel, lét boltann ganga og þær settu skotin sín. Varnarlega voru þær ágætar; gáfu yfirleitt ekki frí skot og fráköstuðu vel þegar Ísland gat ekki hitt úr skotunum.

Bestar í kvöld

Borislava Hristova átti góðan leik fyrir Búlgaríu í dag og var mjög kræf sóknarlega. Hún skoraði 26 stig, tók 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Jaklin Dencheva Zlatanova var líka ágæt, en hún skoraði 12 stig, tók 15 fráköst og varði tvö skot.

Í íslenska liðinu var Sara Rún Hinriksdóttir allt í öllu. Hún skoraði 31 stig, 8 fráköst, gaf 3 stoðsendingar, stal tveimur boltum og varði tvö skot. Sara Rún leiddi í öllum tölfræðiþáttum landsliðsins í leiknum. Af hinum leikmönnum liðsins var Þóra Kristín Jónsdóttir skást með 8 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar.

Slæmur leikur hjá Íslandi

Íslenska landsliðið byrjaði leikinn illa og nýtti færin sín hrikalega. Þær bláklæddu hittu aðeins úr 18 skotum af 66 utan af velli (27.3% nýting) sem er jafnvel verra en þær gerðu í seinasta leik sínum gegn Búlgaríu fyrir ári síðan. Þriggja stiga nýtingin var nærri því engin en þær íslensku hittu aðeins úr þremur þristum af 23 öllum leiknum (13.0% þriggja stiga nýting).

Æfingaleysi íslenska liðsins sýndi sig í að þær virtust úr takti og ekki nægilega æfðar í sókn og vörn sem ein heild. Inn á milli komu vonarglætur þegar boltaflæðið var gott en yfirleitt voru þær að rembast við að skora körfur.

Hvað næst?

Íslenska liðið hefur þá klárað þennan landsliðsglugga og enn ekki unnið leik. Þær halda nú heim og mega vonandi allar fara að æfa með sínum liðum fljótlega. Næsti landsliðsgluggi verður ekki fyrr en í febrúar 2021 þegar liðið mætir Grikklandi og Slóveníu.

Leikurinn við Grikkland á að vera í Laugardalshöllinni en það verður að koma í ljós hvort að leikurinn spilist þar í ástandinu eins og það er núna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira