Skoðun

Verum góð við okkur sjálf

Vigdís Sigurðardóttir skrifar

Lífið er fullt af áskorunum. Það er einmitt eitt af því sem gerir það áhugavert og skemmtilegt. Flest getum við þó sennilega verið sammála um að árið 2020 hafi fært okkur fullmargar áskoranir. Áskoranir sem hafa undið upp á sig, dregist á langinn og færst úr því að vera spretthlaup (í lengra lagi) í að vera langhlaup af óþekktri stærðargráðu því við vitum í raun ekki hvenær við komumst í mark.

Á sama tíma eru verkefni hversdagsins enn öll til staðar svo 2020 útgáfan er hrein viðbót. Þessi útgáfa spyr ekki um aldur, fyrri störf eða hverra manna við erum; öll erum við því að einhverju leyti á sama báti. Í það minnsta að því leyti til að við erum öll að takast á við nýjan raunveruleika í fyrsta skipti. Það er engin handbók, enginn reynslubolti sem allt veit eða leiðsögumaður sem kemur okkur í skjól.

Að geta sett sig í spor annarra er dýrmætur eiginleiki. Það er hins vegar erfiðara en ella á tímum sem þessum, þegar óvissan er mikil og aðalmarkmið margra í raun fyrst og fremst að halda sjó. Komast í gegnum vikuna. En einmitt þess vegna hefur umburðarlyndið sjaldan verið jafn mikilvægt. Ég leyfi mér að fullyrða að hver einasta manneskja sem verður á vegi okkar á degi hverjum er að glíma við einhverjar nýjar áskoranir þessa dagana, rétt eins og við sjálf.

Fjölmargar þessara áskorana eru þess eðlis að við höfum litla sem enga stjórn á þeim. Hér sannast þó hið fornkveðna, að við getum að miklu leyti stjórnað því hvernig við bregðumst við þeim. Nú gæti þó verið tilefni til að víkja frá því sem getur oft virkað og virðist vera sérstakt áhugamál okkar Íslendinga; að taka allt á hnefanum.

Flest eigum við nokkrar útgáfur af okkur sjálfum. Foreldrið, starfsmaðurinn, vinkonan, yfirmaðurinn, systkinið, jú og svo er manneskjan sjálf þarna einhvers staðar líka. Þegar á móti blæs er tilhneigingin oftar en ekki sú að huga fyrst að skyldum okkar við aðra og láta okkur sjálf mæta afgangi. Sérstaklega í þessari blessuðu 2020 útgáfu. Auðvitað þarf lífið að geta gengið sinn vanagang svona eins og hægt er. Ég er hins vegar á því að ef að við hugum að okkur sjálfum, sýnum okkur sjálfum umburðarlyndi og skilning á þessum skrítnu tímum, skilar það sér líka margfalt til fólksins í kringum okkur.

Hvetjum sjálf okkur áfram af jafn miklum ákafa og við hvetjum fólkið okkar áfram. Hughreystum okkur þegar þarf. Verum góð hvert við annað en gleymum ekki að vera góð við okkur sjálf.

Höfundur er lögfræðingur og söngkona.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×