Innlent

Veðurviðvaranir um nær allt land

Eiður Þór Árnason skrifar
Ekkert ferðaveður verður víðast hvar á landinu.
Ekkert ferðaveður verður víðast hvar á landinu. Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út viðvörun vegna slæms veðurs í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu. Víða verður ekkert ferðaveður.

Appelsínugul veðurviðvörun verður í gildi fyrir Vestfirði fram á þriðjudag en þar má búast við norðaustan stormi eða roki, 20 til 25 metra á sekúndu, með talsverðri snjókomu.

Einnig hefur snjóflóðavakt Veðurstofunnar varað við snjóflóðahættu á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum frá klukkan 21:30 í kvöld.

Þá verður gul viðvörun á morgun á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendi og sums staðar fram á þriðjudag.

Nú gengur í suðaustan og austan hvassviðri eða storm, fyrst suðvestantil. Snjókoma eða slydda, en slydda eða rigning sunnantil og talsverð úrkoma suðaustan- og austantil á landinu, segir í veðurspá.

Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á morguninn, fyrst suðvestantil, en áfram norðaustan hvassviðri og ofankoma á Vestfjörðum, en stormur eða rok og aukin ofankoma um kvöldið.

Suðlæg eða breytileg átt 5-13 í öðrum landshlutum og skúrir eða él, en þurrt að mestu norðaustanlands. Frost 0 til 6 stig fyrir norðan, en hiti að 5 stigum sunnanlands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.