Handbolti

Kristján Örn og Magnús Óli kallaðir inn í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús Óli Magnússon hefur leikið vel með Val í Olís-deild karla og er nú kominn í landsliðið.
Magnús Óli Magnússon hefur leikið vel með Val í Olís-deild karla og er nú kominn í landsliðið. vísir/hulda margrét

Guðmundur Guðmundsson hefur kallað þá Kristján Örn Kristjánsson og Magnús Óla Magnússon inn í íslenska handboltalandsliðið sem mætir Litháen í undankeppni EM næsta miðvikudag.

Ólafur Guðmundsson þurfti að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla og þá á Arnór Þór Gunnarsson ekki heimangengt af persónulegum ástæðum. Guðmundur hefur því hóað í þá Kristján og Magnús Óla.

Kristján er á sínu fyrsta tímabili hjá Pays d'Aix í frönsku úrvalsdeildinni. Hann hefur farið vel af stað með liðinu og skorað sautján mörk í aðeins 22 skotum í þremur fyrstu leikjum þess í deildinni.

Magnús Óli leikur með Val og byrjaði tímabilið af miklum krafti. Hann skoraði 27 mörk í fyrstu fjórum leikjum Vals í Olís-deild karla og gaf sextán stoðsendingar.

Ísland átti að mæta Ísrael 7. nóvember en EHF tók þá ákvörðun í gær að fresta leiknum. Óvíst er hvenær hann fer fram.

Auk Íslands, Litháens og Ísraels er Portúgal í riðli 4 í undankeppni EM. Tvö efstu liðin komast á EM sem og þau fjögur lið sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðlanna átta í undankeppninni.

Íslenski hópurinn kemur saman um næstu helgi og æfir á mánudag og þriðjudag. Leikurinn gegn Litháen er svo á miðvikudaginn eins og áður sagði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.