Handbolti

Íslensku leikmennirnir í Þýskalandi fá að koma í landsleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson fagnar því að mega spila með íslenska landsliðinu gegn Litháen.
Bjarki Már Elísson fagnar því að mega spila með íslenska landsliðinu gegn Litháen. @TBVLEMGOLIPPE

Íslensku landsliðsmennirnir í handbolta sem leika í Þýskalandi fá leyfi til að fara í landsleikinn gegn Litháen í undankeppni EM á miðvikudaginn í næstu viku.

Þýsk félagslið íhuguðu að banna leikmönnum sínum að fara í landsleiki til landa sem eru skilgreind sem hættusvæði vegna kórónuveirufaraldursins. Ísland hefur verið skilgreint sem hættusvæði af þýskum stjórnvöldum síðan 30. september.

Nú er ljóst að þýsk félagslið hafa gefið landsliðsmönnunum sínum grænt ljós á að fara í landsleiki. Þetta staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, við handbolta.is.

Níu leikmenn í íslenska landsliðshópnum leika í Þýskalandi: Janus Daði Smárason, Bjarki Már Elísson, Oddur Gretarsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon, Ýmir Örn Gíslason, Arnar Freyr Arnarsson, Arnór Þór Gunnarsson og Viggó Kristjánsson.

Búið er að fresta leik Íslands og Ísrael sem átti að fara fram 7. nóvember. Samkvæmt fréttatilkynningu frá HSÍ tók Evrópska handknattleikssambandið, EHF, ákvörðunina að beiðni ísraelska handknattleikssambandsins. Ísraelar munu eiga erfitt með að ferðast til Íslands vegna ferðatakmarkana af völdum kórónuveirufaraldursins.

HSÍ er afar ósátt við ákvörðun EHF. Handknattleikssambandið hafi t.a.m. lagt út í töluverðan kostnað vegna leiksins og afar óljóst sé hvenær og hvort hægt verði að spila hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×