Skoðun

Um hlutanna eðli, ham­farir og hnípna þjóð í vanda

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar

Undanfarið hafa verið í Ríkissjónvarpinu mjög áhugaverðir þættir um líf snillingsins Alberts Einsteins. Einstein skynjaði eðli og innsta kjarna hlutanna. Hann vissi að sömu náttúrulögmál gilda í öllum alheiminum og að á sama tíma eru hlutirnir breytilegir eftir því frá hvaða sjónarhorni þeir eru skoðaðir. Tími og rúm eru afstæðir hlutir. Ljósið bognar er það nálgast sólina.

Við erum í dag að ganga í gegnum náttúruhamfarir. Þessi veira sem geisar um Jörðina alla kemur úr náttúrunni. Hún fer eftir eðli sínu sem náttúran ein hefur ákvarðað. Á sama hátt og frumefni lotukerfisins hafa ákveðið eðli, er veiran með ákveðin einkenni og hegðar sér á ákveðinn hátt.

Eiturefni í náttúrunni eru t.d. efni eins og kadmíum, úraníum og strontíum. Kadmíum þekkjum við Íslendingar vel. Það berst með eldgosum út í andrúmsloftið og sest í mosa og vötn, þar sem það getur haft áhrif á lífríki.

Að sama skapi er COVID-19 veiran náttúrlegt fyrirbæri. Faraldur hennar eru náttúruhamfarir eins og eldgos eða flóð. Faraldurinn er hins vegar langvinnur og erfiður, þar sem hann stendur mánuðum eða árum saman. Það má kannski líkja þessu við Kröfluelda. Þegar fræðingar sögðu að eldunum væri loksins lokið, gaus gjarnan næsta dag.

Alveg eins og þegar um eiturefni er að ræða, þá gerir veiran ekki mannamun. Náttúran getur verið viðskotaill og þessi veira náttúrunnar fer ekki eftir pólitík, samsæriskenningum eða skoðunum fólks. Hún fer einfaldlega eftir sínu eigin náttúrulega eðli.

Við skulum því ekki kenna fólki um þessa veiru. Við skulum ekki kenna Almannavörnum um veiruna. Við skulum ekki kenna starfsfólki Landspítalans, Landakots eða Sólvalla um veiruna. Við myndum ekki kenna þeim um, ef það væri eldgos í gangi? Auðvitað geta alltaf orðið mistök. Það er mannlegt eðli að gera mistök og við myndum líka gera mistök ef við værum að bregðast við eldgosi eða flóði.

Þórólfur Guðnason, Alma Möller landlæknir, Víðir Reynisson og Páll Matthíasson eru öll að gera sitt allra, allra besta. Við skulum gefa þeim tækifæri, tíma og ráðrúm til að vinna vinnuna sína.

Við Íslendingar skulum hætta að rífast. Leggjum niður vopn. Sameinuð getum við sigrast á ógninni sem er veiran sjálf. Ég hvet alla íbúa Íslands til dáða!

Eitt sinn var gert manntal þegar Kýreneus var landsstjóri á í Sýrlandi. Þá snéri hver maður sér til sinnar borgar. Við búum líka svo vel hér á Íslandi að eiga þjóðkirkju sem stóð með okkur í Móðuharðindunum 1783-1785. Sú forna kirkja hefur staðið með þjóðinni um aldir. Hún er mörgum vígi eða borg.

Núna skulum við öll fara inn á við og leita styrks hver í sinni borg, hver í sínum söfnuði og í sínu heimspekilega virki. Fjölmenningarsamfélagið Ísland getur fundið sinn styrk, hvert í sinni trú, heimspeki eða lífsskoðun. Við þurfum ekki öll að vera eins, en sameinuð erum við sterk. Hættum að kíta! Stöndum saman! Sameinuð getum við sigrast á þessari ógn!

Höfundur er þýðandi og framkvæmdastjóri Brandugla Translations ehf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×