Handbolti

Ómar Ingi frá­bær í sigri Mag­deburgar | Fyrsta tap Löwen og Bergischer

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon í leik með íslenska landsliðinu.
Ómar Ingi Magnússon í leik með íslenska landsliðinu. vísir/daníel

Alls léku fjórir Íslendingar með liðum sínum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Aðeins einn þeirra var þó í sigurliði.

Ómar Ingi Magnússon var frábær í liði Magdeburgar sem vann sex marka útisigur á Ludwigshafen. Gerði hann fimm af 28 mörkum Magdeburgar í kvöld, lokatölur 28-22.

Gísli Þorgeir Kristjánsson – sem er að komast af stað að nýju eftir meiðsli – lék ekki með Magdeburg í kvöld. Liðið er í 3. sæti deildarinnar þegar fjórar umferður eru búnar. Hefur Magdeburg unnið þrjá leiki og aðeins tapað einum. 

Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk er Bergischer tapaði naumlega á heimavelli fyrir Wetzlar með tveggja marka mun í kvöld. Lokatölur 22-20 Wetzlar í vil eftir að staðan hafði verið jöfn 13-13 í hálfleik. 

Bergischer er í 6. sæti deildarinnar sem stendur en þetta var fyrsta tap liðsins í deildinni á tímabilinu. 

Þá skoraði Ýmir Örn Gíslason eitt mark er Rhein-Neckar Löwen tapaði á heimavelli gegn Leipzig í kvöld. Lokatölur 23-28 og gestirnir fóru því heim með stigin tvö. Alexander Petersson komst ekki á blað í liði Löwen.

Ýmir Örn og Alexander eru sem stendur í 5. sæti deildarinnar með Löwen en þetta var einnig fyrsta tap liðsins í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×