Körfubolti

Landslið Íslands í körfubolta verða af heimaleikjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kvennalandsliðið er á leiðinni til Grikklands.
Kvennalandsliðið er á leiðinni til Grikklands. Vísir/Bára

Íslensku landsliðin í körfubolta áttu að spila leiki í Laugardalshöllinni í nóvember. Karlaliðið átti að spila tvo leiki í undankeppni HM á meðan kvennaliðið átti stakan heimaleik í undankeppni EM áður en það myndi halda ytra.

Nú er ljóst að ekkert verður af leikjunum í Laugardalshöllinni. Þess í stað fara bæði lið erlendis og verða fyrri umferðir beggja undankeppna leiknar á aðeins nokkrum dögum. Karlalandsliðið heldur til Slóvakíu á meðan kvennalandsliðið fer til Grikklands.

Íslenska karlalandsliðið er á leið til Slóvakíu.Vísir/Bára

Upprunalega átti A-landslið kvenna að mæta Slóveníu í Laugardalshöllinni þann 12. nóvember og Búlgaríu ytra þremur dögum síðar. Báðir leikir eru hluti af undankeppni EM sem fram fer á næsta ári. Nú fer liðið hins vegar til Heraklion í Grikklandi þar sem það mætir heimastúlkum, Slóvenum og Búlgörum frá 8. til 15. nóvember.

A-landslið karla átti tvo heimaleiki gegn Lúxemborg og Kósovó framundan í Laugardalnum. Báðir leikir hluti af undankeppni HM sem fram fer árið 2023. Áttu leikirnir að fara fram 26. og 29. nóvember. Ekkert verður af því og mun liðið í stað þess halda til Bratislava í Slóvakíu þar sem það mætir heimamönnum, Lúxemborg og Kósovó dagana 23. til 29. nóvember.

Þetta kemur fram á vef Alþjóða körfuknattleikssambandsins, FIBA. Ástæðan er kórónufaraldurinn og er talið að þetta fyrirkomulag henti betur að svo stöddu. Sem stendur mun síðari umferð beggja undankeppna fara fram með svipuðu sniði í febrúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×