Skoðun

Sjallar eru og verða sjallar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Auðvitað er þetta ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. En stundum birtist hún okkur þannig að við veigrum okkur við að kenna aðfarir ráðherra Sjálfstæðisflokksins við þá mætu konu. Þegar við sjáum blika á niðurskurðarhníf gagnvart nauðsynlegri þjónustu; þegar við sjáum ríghaldið í skerðingar sem halda fólki í fátæktargildrum; þegar sveitarfélög eru svelt svo að nærþjónustan er í hættu; þegar stuðningur við einkarekna fjölmiðla er klæðskerasniðinn að Mogganum; þegar staðinn er vörður um gjafakvóta á auðlindanot; þegar átt er í illvígum deilum við fjölmennar umönnunarstéttir; þegar viðraðar eru af dómsmálaráðherra hugmyndir um sérstakar flóttamannabúðir svo að börnin sem hingað leita komist örugglega ekki í skóla og kynnist engum ...

Þannig má lengi telja. Mér er minnisstætt ágætt mál sem kom frá ríkisstjórninni í fyrra og verkalýðshreyfingin (og raunar SA líka) hafði troðið upp á hana í lífskjarasamningunum. Það snerist um kennitöluflakk og löngu tímabærar aðgerðir til að taka á þeirri þjóðarskömm. Ég sat í þeirri þingnefndsem vann málið og það var nánast sama hver kom fyrir nefndina: allir aðilar vinnumarkaðarins luku upp einum munni um það hversu brýnt og ágætt málið væri. Það voru aðeins einhverjir lögfræðingar og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem reyndust andvígir málinu. Sem dugði til þess að þrátt fyrir nægan tíma komst það aldrei út úr nefndinni vegna andstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Já auðvitað: þetta er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir. En ríkisstjórn hennar er ekki einhver önnur ríkisstjórn en stjórnin sem Sjallar sitja í. Sjallar hætta ekkert að vera Sjallar. Og Sjallar hætta ekki að hugsa um sína.Og hætta ekki að standa vörð um það sem þeir álíta gamlar og góðar hefðir í íslensku viðskiptalífi.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×