Handbolti

„Það er enginn á Íslandi með þessar hreyfingar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Óli Magnússon var með 8 mörk og 3 stoðsendingar í sigrinum á Haukum og fékk 9,5 í einkunn hjá HB Statz.
Magnús Óli Magnússon var með 8 mörk og 3 stoðsendingar í sigrinum á Haukum og fékk 9,5 í einkunn hjá HB Statz. Vísir/Bára

Valsmaðurinn Magnús Óli Magnússon átti mjög flottan leik þegar Valsliðið sótti tvö stig á Ásvelli með því að vinna topplið Hauka 28-25. Magnús Óli fékk líka hrós frá sérfræðingum Seinni bylgjunnar.

„Eigum við ekki aðeins að tala um þennan gæja hérna því hann á ansi stóran þátt í þessum sigri en það er Magnús Óli Magnússon,“ hóf Henry Birgir Gunnarsson umræðuna um Magnús Óli Magnússon í Seinni bylgjunni.

„Hann gerði allt og þetta var bara gjörsamlega geggjaður leikur hjá honum. Hann er bara að tæta Haukavörnina í sig, finta til hægri og finta til vinstri,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

„Mér finnst hann hafa bætt leikskilninginn sinn undanfarin ár og hann er kominn með fína sendingatækni. Þetta var bara frábær leikur að hans hálfu en þetta kom mér ekkert á óvart því hann er búinn að vera að spila svona í allan vetur,“ sagði Ásgeir Örn.

„Hann var frábær. Það er ekki oft sem maður sér það í nútíma handbolta að leikmenn séu teknir úr umferð því það er eiginlega að verða úrelt. Haukarnir þurftu að spila framarlega á móti honum því þeir réðu ekkert við hann. Ég hálf vorkenndi Geir Guðmundssyni á tímabili,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar.

„Hann fór mjög oft illa með hann. Það er enginn á Íslandi með þessar hreyfingar. Miðað við það hvernig byrjun hans hafa verið þá finnst mér hann ekki vera besti leikmaðurinn í deildinni heldur langbesti leikmaður deildarinnar,“ sagði Jóhann Gunnar.

Það má sjá alla umræðuna í myndbandinu hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Umræða um Magnús Óla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×