Körfubolti

Fjölnir lagði Íslandsmeistara Vals | KR í vondum málum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keira Robinson var allt í öllu í liði Skallagríms í kvöld.
Keira Robinson var allt í öllu í liði Skallagríms í kvöld. Vísir/Daniel Thor

Tveimur leikjum af þeim þremur sem fara fram í Domino´s deild kvenna í dag er nú lokið. Skallagrímur vann KR með fjögurra stiga mun í dag, 74-71. Þá töpuðu Íslandsmeistarar Vals óvænt fyrir Fjölni í Grafarvogi. 

Er þetta annað tap Íslandsmeistaranna í röð en þeim var hins vegar dæmdur sigur gegn Blikum vegna þess að Blikar notuðu leikmann sem átti að vera í banni.

Skallargrímur byrjar af krafti

Bikarmeistarar Skallagríms – sem unnu KR í úrslitum á síðustu leiktíð – gerðu góða ferð í Vesturbæinn þar sem þeir lögðu KR í DHL-höllinni í 2. umferð Domino´s deild kvenna í körfubolta í dag.

KR-ingar voru í góðri stöðu fyrir síðasta fjórðung leiksins og leiddu með átta stigum, staðan þá 66-58. Það fór hins vegar allt í baklás, gestirnir gengu á lagið og unnu á endanum fjögurra stiga sigur, lokatölur 71-75.

Keira Robinson var allt í öllu í liði Skallagríms en hún gerði 35 stig ásamt því að taka 16 fráköst í liði Skallagríms. Þá gerði Embla Kristínardóttir tíu stig ásamt því að gefa fimm stoðsendingar. Í liði KR var Annika Holopainen atkvæðamest, hún skoraði 24 stig og tók tíu fráköst.

Fjölnir óstöðvandi í upphafi móts

Þá töpuðu Íslandsmeistarar Vals óvænt fyrir Fjölni á útivelli. Lokatölur í Grafarvogi 71-60 Fjölni í vil.

Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur og mikill munur milli leikhluta. Segja má að þriðji leikhluti hafi farið með Valsstúlkur í kvöld en þær skoruðu aðeins sex stig. Þeim tókst ekki að grafa sig upp úr þeirri holu og vann Fjölnir verðskuldað.

Lina Pikciuté var atkvæðamest í liði Fjölnis með 29 stig og 16 fráköst. Þar á eftir kom Ariana Moorer með 15 stig og 15 fráköst. Hjá Val var Hallveig Jónsdóttir stigahæst með 20 stig.

Fjölnir trónir á toppi deildarinnar en þær hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa á leiktíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×